914 hafa fengið sanngirnisbætur

Landakotsskóli. Verið er að greiða út bætur til fyrrverandi nema.
Landakotsskóli. Verið er að greiða út bætur til fyrrverandi nema. mbl.is/Jim Smart

Ríkissjóður hefur greitt út tæpa 2,2 milljarða í sanngirnisbætur til 914 einstaklinga, af rúmum 2,3 milljörðum sem hann hefur skuldbundið sig til að greiða. Í geymslu eru bætur að fjárhæð 150 milljónir en þær verða að mestu greiddar út á árinu 2018 og eru einkum tilkomnar vegna Landakotsskóla, samkvæmt upplýsingum frá Halldóri Þormari Halldórssyni, umsjónarmanni sanngirnisbóta hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra.

Samkvæmt lögum um sanngirnisbætur geta einstaklingar, sem voru vistaðir sem börn á vistheimilum á vegum hins opinbera um og eftir síðustu öld og urðu fyrir ofbeldi eða annarskonar illri meðferð á meðan á vistuninni stóð, sótt um að fá greiddar sanngirnisbætur úr ríkissjóði. Ef vistmaður er látinn geta börn hans sótt um bæturnar með sama hætti. Undanþáguákvæði eru í lögunum um að heimilt er að ákveða að aðrar skýrslur en skýrslur vistheimilanefndar verði lagðar til grundvallar því að krafa um sanngirnisbætur verði tekin til meðferðar, eins og í máli Landakotsskóla.

Fyrstu sanngirnisbæturnar voru greiddar út í mars árið 2011 en innköllun á bótakröfum frá vistmönnum og bótagreiðslum er nú lokið vegna níu vistheimila, það eru; Breiðavík, Kumbaravogur, Heyrnleysingjaskólinn, Reykjahlíð, Bjarg, Silungapollur, Jaðar og Upptökuheimili ríkisins.

Haustið 2016 var ákveðið að kalla eftir kröfum frá fyrrverandi nemendum Landakotsskóla á grundvelli skýrslu rannsóknarnefndar Kaþólsku kirkjunnar.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um greiðslu bóta vegna skýrslunnar um Kópavogshælið.

Vistheimilanefnd.
Vistheimilanefnd. mbl.is/Golli

Hámarksupphæð 7,2 m.kr.

Borist hafa í heild 960 umsóknir um sanngirnisbætur og hefur greiðsla bóta farið fram í 914 tilvikum. Ástæður fyrir höfnun umsóknar eru oftast að engar upplýsingar finnast um að viðkomandi hafi verið á þeirri stofnun sem um ræðir, sótt er um bætur vegna stofnunar sem fellur ekki undir lögin, viðkomandi dvaldi á stofnuninni í mjög skamman tíma, umsóknin barst of seint og bótakrefjandi dvaldi á stofnuninni eftir að hann náði lögræðisaldri.

Hámarksupphæð bóta er í dag rúmlega 7,2 milljónir króna. Meðalbæturnar sem hver um sig hefur fengið eru 2,5 milljónir en það er mun lægra en meðalbætur vegna sumra stofnana en mun hærra en meðalbætur vegna annarra. Ákvörðun um upphæð bóta til hvers og eins fer m.a eftir gerð stofnana og hvað starfstími þeirra var langur. Bætur til þeirra sem dvöldu á Breiðavík, í Heyrnleysingjaskólanum og á Landakoti hafa verið hæstar vegna langs dvalartíma margra og mjög margra tilvika um illa meðferð, að sögn Halldórs Þormars. ingveldur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert