Óttuðust viðbrögð samfélagsins

Tollhúsið við Tryggvagötu.
Tollhúsið við Tryggvagötu. mbl.is/Ófeigur

Meðan á verkefni dómsmálaráðuneytisins um greiðslu sanngirnisbóta stóð á árunum 2010 til 2018 fékk tengiliður þess, Guðrún Ögmundsdóttir, um 3.500 símtöl og ríflega 1.500 tölvupósta sem þurfti að svara.

Undirbúningur hófst haustið 2010 og var ákveðið að skrifstofa tengiliðar skyldi til að byrja með vera á sama stað og vistheimilanefnd var til húsa, eða í Tollhúsinu við Tryggvagötu. Aðgengi að skrifstofum vistheimilanefndar og skrifstofu tengiliðar var með þeim hætti að aðgreint var á milli. Á þessum tíma hafði nefndin ekki lokið störfum sínum og úttektum og var enn að taka viðtöl við fólk vegna málsins, að því er kemur fram í lokaskýrslu vegna sanngirnisbótanna sem hefur verið birt.

„Þung og blandin trega“

„Ljóst mátti vera að fyrir mörgum var málið afar viðkvæmt og margir óttuðust viðbrögð samfélagsins ef það kæmist í hámæli að þeir hefðu dvalið á vistheimili sem börn. Það lá því fyrir að spor margra á skrifstofu tengiliðar yrðu þung og blandin trega. Vegna þess var haft í huga við skipulag á starfsemi tengiliðar að skrifstofan yrði ekki á áberandi stað,“ segir í skýrslunni.

„Að auki hentaði staðsetning skrifstofunnar ágætlega þar sem ýmis önnur starfsemi var í húsinu á þessum tíma og því minni hætta á að þeir sem vildu leita til tengiliðar hyrfu frá af ótta við að vera opinberaðir. Þetta fyrirkomulag reyndist afar vel.“

Risavaxið verkefni

Fram kemur að um einstakt og risavaxið verkefni var að ræða sem hafði aldrei áður verið unnið í íslensku samfélagi og því engar fyrirmyndir til að styðjast við hérlendis. Þar segir einnig að tengiliður hafi metið í upphafi að ekki væri hægt að taka fleiri en fjögur viðtöl á dag og reiknað var með klukkutíma fyrir hvert viðtal. Þetta var ákveðið svo að tengiliður gæti gefið sig að viðmælandanum því mörg viðtölin voru „þung og erfið“.

„Gríðarlegt álag varð á stundum þar sem tengiliður sinnti einn starfinu og stundum var bankað og hringt á meðan viðtal var tekið. Það reyndist nauðsynlegt að spila verkefnið af fingrum fram og reyna að þjóna öllum sem best og styðja alla. Það reyndist ekki vel að hafa fasta viðtalstíma þar sem margir voru í þannig stöðu að slíkt hentaði þeim mjög illa því að þeir voru ekki í aðstöðu til að komast í tölvupóst eða síma.“

Guðrún Ögmundsdóttir.
Guðrún Ögmundsdóttir.

Gríðarleg tortryggni

Í skýrslunni segir einnig að tengiliður hafi leiðbeint fólki um hvar og hvaða þjónustu það gæti fengið. Þar var sálfræðiaðstoð stærsti þátturinn og samdi tengiliður við mörg sveitarfélög um greiðslu kostnaðar fyrir þá sem slíkan stuðning þurftu. Eitt flóknasta viðfangsefnið var að greina hvert tjón einstaklings varð af vistun á heimili, ofbeldi eða illri meðferð, fjarri foreldrum og öðrum ættingjum og svo þess tjóns sem hlaust af erfiðum heimilisaðstæðum.

„Gríðarlegrar tortryggni gætti hjá mörgum í garð yfirvalda og því var oft á tíðum erfitt að útskýra fyrirkomulagið fyrir bótakrefjendum, til að mynda að skipta þyrfti greiðslunum í samræmi við ákvæði laganna eða að ekki væri hægt að ganga frá hverju máli fyrir sig þegar í stað. Þá reyndist mjög erfitt að standa við ákvæði laganna um gjalddaga, en þar segir að gjalddagi sé fyrsti virki dagur næsta mánaðar eftir að sáttaboð berst undirritað. Fyrirkomulagið á greiðslu bótanna girti í mörgum tilvikum fyrir að unnt væri að standa við þetta og olli það mjög oft mikilli óánægju meðal bótakrefjenda,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert