„Urðu ekki aðeins fyrir andlegum skaða“

Blaðamannafundur verður haldinn í dómsmálaráðuneytinu í dag vegna skýrslunnar.
Blaðamannafundur verður haldinn í dómsmálaráðuneytinu í dag vegna skýrslunnar. mbl.is/Hjörtur

Engin könnun hefur farið fram á því hvernig sanngirnisbæturnar sem voru greiddar til þeirra sem dvöldu sem börn á stofnunum eða heimilum nýttust þeim sem þær fengu.

Í skýrslunni kemur fram að meginregla íslensks skaðabótaréttar sé að greiddar skaðabætur eigi að gera tjónþola jafnsettan og hann var áður en atburðurinn varð. „Í tilviki sanngirnisbóta verður að telja þetta frekar fráleitt markmið þar sem í fyrsta lagi er vonlaust að meta nákvæmlega það tjón sem einstaklingur varð fyrir af dvöl á vistheimili, enda langur tími liðinn og margt á fjörur hans rekið um ævina sem getur haft veruleg áhrif, eins og gengur og gerist í lífi flestra,“ segir í skýrslunni.

„Í öðru lagi má vera ljóst að margir urðu ekki aðeins fyrir andlegum skaða heldur misstu af tækifærum eins og varðandi nám, sem var oftast af skornum skammti á þeim stofnunum sem hafa verið til umfjöllunar. Slíkt tjón getur eftir atvikum verið nær óbætanlegt, en horfa verður til þess að ríkissjóður hefði mögulega getað brugðist við því með einhverjum hætti, hefði staðan verið önnur, enda virtust margir fyrst og fremst einblína á greiðslu fébóta sem úrræði.“

Í þriðja lagi segir að óraunhæft geti verið að búast við því að einstaklingar sem fái bætur verji þeim með skipulegum og uppbyggilegum hætti, enda sé veruleiki flestra að glíma við daglegt líf.

Aldrei staðið á fjármunum frá ríkinu

„Þrátt fyrir þessa annmarka verður að líta svo á að íslenska ríkið hafi mætt þessu stóra verkefni með næsta skynsamlegum og skipulegum hætti, þrátt fyrir þá efnahagsörðugleika sem urðu í árslok 2008 og höfðu mikil áhrif næstu árin á eftir. Til dæmis hefur aldrei staðið á þeim fjármunum sem lofað var til verkefnisins og bætur hafa verið greiddar til nærri tólf hundruð einstaklinga og nema greiddar bætur eða þær bætur sem ríkissjóður hefur skuldbundið sig til að greiða tæplega þremur milljörðum króna,“ segir í skýrslunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert