„Átti mínar erfiðu stundir“

Guðrún Ögmundsdóttir á blaðamannafundinum.
Guðrún Ögmundsdóttir á blaðamannafundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Ögmundsdóttir segir að það hafi reynt mikið á sig að starfa sem tengiliður vistheimila síðastliðin átta ár en lokaskýrsla um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum fyrir börn var birt í dag. Þar kemur fram að „margir urðu fyrir verulega tjóni af dvöl á vistheimili vegna þess harðræðis og ofbeldis sem þeir máttu sæta“. 

Hávamál komu að góðum notum

Í skýrslunni kemur einnig fram að mörg viðtölin sem Guðrún tók í Tollhúsinu við þá sem sóttust eftir bótum hafi verið þung og erfið og að álagið hafi stundum verið gríðarlegt. Þar fyrir utan fékk Guðrún um 3.500 símtöl vegna verkefnisins og um 1.500 tölvupósta í starfi sínu sem tengiliður vistheimila.

„Ég átti mínar erfiðu stundir og þurfti stundum að fara í göngutúra,“ sagði hún í dómsmálaráðuneytinu þar sem blaðamannafundur var haldinn vegna skýrslunnar. Hún sagðist hafa haft kvæði úr Hávamálum sem leiðarljós í starfi sínu en hún hafði það uppi við á skrifstofu sinni. Það hljómar svona: „Þegar lundin þín er hrelld, þessum hlýddu orðum, gakktu með sjó eða sittu upp við eld, svo kvað völvan forðum.“

„Ég varð stundum að labba út og fara heim og elda góðan mat og umvefja mína. En það skiptir líka miklu máli að geta umvafið þetta fólk, það er eiginlega lykilatriði. Þess vegna verður vinnan líka pínu óhefðbundin um margt,“ bætti hún við.

Frá kynningu í dag á skýrslu um sanngirnisbæturnar. Halldór Þormar …
Frá kynningu í dag á skýrslu um sanngirnisbæturnar. Halldór Þormar Halldórsson ásamt Guðrúnu Ögmundsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fékk sjálf handleiðslu 

Fram kemur í skýrslunni að Guðrún hafi leiðbeint fólki varðandi sálfræðiaðstoð sem það gat fengið. Sjálf segist hún hafa fengið slíka aðstoð í starfi sínu. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem fagmenn að vera alltaf með handleiðslu. Að geta tekið spegil á það sem við erum að gera.“

Hún segist aldrei hafa hugleitt að segja sig frá verkefninu á þessum átta árum. Til þess hafi henni þótt of vænt um fólkið sem sóttist eftir bótum. „Auðvitað hefði verið æskilegra þegar maður lítur til baka að það hefðu verið tveir til þrír úr minni stöðu til viðbótar, af því að álagið er búið að vera óheyrilegt.“

Vön því að taka viðtöl

Spurð hvort einhverjir hafi litið á starf hennar sem auðvelt þegar hún tók við því á sínum tíma segist hún ekki telja það. Hún hafi fengið starfið því hún var metin hæfust, enda var hún vön því að taka viðtöl á kvennadeild Landspítalans þar sem hún starfaði í níu ár. „Ég var mjög viðtalsvön og skipulögð og það er það sem þurfti til. Ég er líka málamiðlari, það er líka mitt eðli. Það er mikilvægt að vinna fólk inn í einhverja sátt, sátt við sjálfa sig, sátt við hið opinbera og svo framvegis. Það er eitt af því sem fór í mitt leiðarljós líka,“ greindi hún frá.

SKýrslan sem um ræðir.
SKýrslan sem um ræðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miklir ofbeldismenn erfiðir

Var ekki snúið að taka þessi viðtöl?

„Jú, maður er fljótur að læra að lesa í en auðvitað var erfiðast að vera með mikla ofbeldismenn. Þeir urðu svo bestir þegar upp var staðið,“ sagði hún og benti á að öll flóra mannlífsins hafi komið til hennar í viðtal. Meðal annars hafi rokkarar boðist til að keyra hana í kirkju. „Þannig að það hafa verið dásamlegar stundir.“

Eitt það fallegasta sem sagt var við hana var þegar einn maður spurði hversu lengi hún hefði verið á götunni og sagðist hún hafa verið svo heppin að hafa ekki lent í slíku. „Það hlaut eiginlega að vera, því þú skilur okkur svo vel,“ sagði Guðrún er hún vitnaði í manninn. „Þannig að þá er maður að gera eitthvað rétt.“

Stendur eitthvað sérstakt upp úr þegar þú lítur til baka?

„Nei, kannski bara þegar fólk er gott. Fólk á þetta ekki skilið. Sérstaklega ekki fullorðnu börnin, það bara er þannig. Þau eiga þetta ekki skilið.“

Óbætanlegt tjón

Sanngirnisbæturnar nema um þremur milljörðum króna og ná til hátt í 1.200 einstaklinga. Þeir sem fá hæstu bæturnar fá yfir sjö milljónir króna. Spurð hvort upphæðin sé nógu há sagði hún tjónið vera óbætanlegt og fjármunir breyti engu þar um. Engu að síður hafi þeir hjálpað sumum og hefur fólk getað látið drauma sína rætast í einhverjum tilfellum.

Faglegt eftirlit verður að vera til staðar

Hvað lærdóminn varðar sem draga má af verkefninu upp á framtíðina að gera sagði Guðrún að meginmáli skiptir varðandi starfsemi þar sem börn og annað fólk er í vistun að hafa með henni eftirlit. „Ef það eftirlit virkar ekki þá fáum við aftur svona mál eftir tuttugu ár. Eftirlitið þarf að vera stöðugt og faglegt, þannig að allir séu að vinna sína vinnu eftir faglegri og bestu getu. Kannski er þetta verkefni skólabókardæmi um að það var ekkert eftirlit.“

mbl.is