Langflestir fengið tvær milljónir

Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar …
Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. Karladeildin sem reist var um 1950 var í sams konar byggingu vestan við kvennadeildina. Karladeildin var rifin fyrir nokkrum árum og rústirnar eru þaktar svartri möl. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tvær milljónir króna hafa verið greiddar til langflestra þeirra sem hafa fengið sáttabeiðni samþykkta vegna slæmrar meðferðar á Kópavogshæli.

Tæpur helmingur umsækjenda fær fullar sanngirnisbætur, eða 7.316.182 krónur vísitölutryggt. Innan við tuttugu umsækjendur fá lægstu fjárhæðina sem nemur 3.658.091 krónu, að sögn Halldórs Þormars Halldórssonar, umsjónarmanns sanngirnisbóta hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. 

Enginn hefur vísað sáttaboði sýslumannsins til úrskurðarnefndar en frestur til þess er þrír mánuðir frá móttöku sáttaboðsins eða bréfi um synjun greiðslu.

84 umsóknir hafa borist

Alls hafa 73 sáttaboð um sanngirnisbætur vegna slæmrar meðferðar á Kópavogshæli verið samþykkt af þeim 79 sem sýslumaður hefur sent frá sér.  

Fyrir um tveimur mánuðum höfðu 79 umsóknir borist sýslumanni um sanngirnisbætur en síðan þá hafa fimm bæst við og eru þær því orðnar 84 talsins. 89 manns uppfylla skil­yrðin fyr­ir sann­girn­is­bót­um að ein­hverju leyti. Frestur til að skila inn umsókn um bætur er tvö ár.

Haraldur Ólafsson er einn þeirra sem sóttu um sanngirnisbætur.
Haraldur Ólafsson er einn þeirra sem sóttu um sanngirnisbætur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óljósar ástæður fyrir skiptingu bóta

Samkvæmt lögum verða tvær milljónir greiddar út strax, tvær milljónir eftir 18 mánuði og afgangurinn 18 mánuðum síðar.

Lög um sanngirnisbætur tóku gildi sumarið 2010 eftir að upplýsingar komu fram um að börn á vistheimilum hefðu sætt illri meðferð. Ástæðan fyrir því að greiðslum er skipt eru að mati Halldórs Þormar ekki að öllu leyti ljósar. „Sú ástæða sem einkum er gefin upp er að staða ríkissjóðs hafi verið erfið og það að skipta greiðslum væri líklegri leið til að hægt verði að greiða hærri bætur,” útskýrir hann.

„Sú kenning hefur heyrst að ástæður skiptingarinnar séu einnig aðrar og eigi rót sína í tilraun til þess að stýra greiðslunum með þeim hætti að líklegra sé að bæturnar nýtist bótakrefjanda með jákvæðum hætti ef þessi háttur er hafður á, frekar en að afhenda hærri fjárhæðir allar í einu. Frumvarpið nefnir þetta þó ekki.”

Í frumvarpinu sem varð að lögum segir: 

„Í 4. mgr. er mælt fyrir um að fari bætur yfir 2 millj. kr. skuli greiðslu þess sem umfram er frestað í 1,5–3 ár eftir þeirri reglu sem sett er fram í ákvæðinu. Stjórn Breiðavíkursamtakanna lagði á sínum tíma til, m.a. með hliðsjón af efnahagsástandi í þjóðfélaginu, að ef það mætti auðvelda ríkinu að hækka bótafjárhæðir þá mundu þau fallast á frestun á greiðslu hluta bóta. Er tillagan sett fram í því ljósi en þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að kostnaður af bótagreiðslum dreifist á lengri tíma og verður því auðveldari viðureignar fyrir ríkissjóð gangi áform eftir um batnandi afkomu þegar frá líður.”

Vistheimilanefnd birti skýrslu sína um Kópavogshæli í febrúar síðastliðnum.
Vistheimilanefnd birti skýrslu sína um Kópavogshæli í febrúar síðastliðnum. mbl.is/Golli

Nefnd getur úrskurðað um lægri bætur

Þorbjörg Inga Jónsdóttir, hæstaréttarlögmaður og formaður úrskurðarnefndar, segir að enginn hafi vísað sáttaboði til nefndarinnar.

Ef fólk ákveður að vísa sáttaboði sínu þangað er að sögn Þorbjargar Ingu verið að óska eftir því að nefndin taki ákvörðun um bæturnar. Þriggja manna nefnd ákvarðar þá upphæð bótanna og ekki er hægt að kæra þann úrskurð. Upphæðin getur verið bæði hærri eða lægri en sýslumaður býður.

Skilur óánægju Þroskahjálpar

Samkvæmt lögum er aðeins hægt að greiða bætur til þeirra sem voru vistaðir á Kópavogshæli þegar þeir voru börn að aldri. Samtökin Þroskahjálp skoruðu á stjórnvöld í síðasta mánuði að veita þeim sem voru orðnir 18 ára er þeir voru í vistun á hælinu einnig bætur.

„Það mál er bara í biðstöðu, það bíður nýrrar ríkisstjórnar,” segir Halldór Þormar og bætir við að óánægja Þroskahjálpar sé skiljanleg.

mbl.is