Ætlar að synda hringinn á sex árum

Jón Eggert hjólaði strandveginn í fyrra en áður hafði hann …
Jón Eggert hjólaði strandveginn í fyrra en áður hafði hann gengið sömu leið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Ég byrja vonandi að synda í byrjun júlí en heildarvegalengdin er um það bil 1.400 kílómetrar,“ segir Jón Eggert Guðmundsson en hann stefnir á að synda hringinn í kringum Ísland á næstu sex árum.

„Þetta hefur aldrei verið gert áður. Íslandsmetið á Viktoría Ásgeirsdóttir sem synti Breiðafjörðinn árið 2003. Það eru 60 kílómetrar þannig að ég er að bæta Íslandsmetið um rúmlega 1.300 kílómetra.“

Jón Eggert hefur áður bætt Íslandsmet með afrekum sínum en hann hefur bæði gengið og hjólað íslensku strandlengjuna. Árið 2006 varð Jón Eggert fyrsti Íslendingurinn til að ganga lengsta hringinn í kringum Ísland en hann gerði það á fimm mánuðum. Síðasta sumar hjólaði Jón Eggert svo sömu leið og varð þá fyrsti Íslendingurinn til að gera það. Jón Eggert er enn eini maðurinn sem hefur gengið eða hjólað þessa leið en hringurinn er 3.446 kílómetrar að lengd.

Jón Eggert gekk með ströndum Íslands árið 2006. Hann gekk …
Jón Eggert gekk með ströndum Íslands árið 2006. Hann gekk yfir 3.400 km á fimm mánuðum. Mynd/Alfons Finnsson

Í samtali við mbl.is eftir hjólaferðina í fyrra sagði Jón Eggert að ekkert væri eftir nema sundið. Hann stefnir að því að hefja sundið á sunnanverðum Vestfjörðum í sumar en ef allt gengur vel mun hann synda með fylgdarbáti í 20 daga og enda á Siglufirði.

„Ég byrja við Breiðuvík og fer í raun og veru norður. […] Þá fer ég þvert yfir alla firðina, þvert yfir Húnaflóa og frá Skaga til Siglufjarðar. Þetta eru 300 kílómetrar.

Jón Eggert stefnir að því að klára hringinn á 6 árum en hann segir veðrið þó leika stórt hlutverk í áætlunum hans.

 „Vegna veðurs er bara einn mánuður á ári sem ég hef í þetta. Í júní er enn þá vor á Íslandi […] og strax um verslunarmannahelgi er komið haust. Þannig að það er bara júlí og jafnvel þá get ég átt von á því að eitt sumarið verði bara vont veður og ég geti ekki einu sinni synt í júlí.“

Þríþraut upp á 8.000 kílómetra

Æfingarnar ganga að sögn Jóns Eggerts mjög vel en hann hefur verið að æfa með fólki sem keppir í þríþraut. 

„Ég er með þjálfara hérna úti og er að æfa mikið með fólki sem er að taka þríþraut, það þarf að synda líka en vandinn er að þau eru að synda svo miklu styttra. […] Þetta er þríþraut upp á 8.000 kílómetra.“

Jón Eggert er búsettur á Miami í Flórídaríki í Bandaríkjunum og hefur því verið að undirbúa sundferðina í sjónum þar ytra.

„Langa æfingin mín lengist alltaf um eina klukkustund á mánuði og núna er ég í 5 klukkutímum og 15 kílómetrum. Í næsta mánuði fer ég þá upp í 6 tíma og 18 kílómetra og í apríl verð ég væntanlega kominn í 20 kílómetra og 7 tíma, það er svona tíminn sem ég stefni að.“

Bæði göngu- og hjólaferðir Jóns Eggert voru söfnunarferðir fyrir Krabbameinsfélag Íslands og svo verður einnig með sundferðina. Símanúmerið er þó ekki orðið virkt enn þá, enda tæpir fimm mánuðir í að sundið hefjist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert