Alvöru vetrarveður á leiðinni

Allmikil lægð nálgast landið í dag og hvessir þá af austri og fer að rigna syðst. Austanstrekkingur og víða rigning í dag, en sums staðar slydda norðvestan til. Lægir síðan og dregur úr vætu í kvöld og nótt, fyrst sunnan til, segir á vef Veðurstofu Íslands.

„Hægir vindar og úrkomulítið eftir hádegi á morgun, en á sunnudag fer önnur lægð á harðaspretti austur yfir landið. Hvessir þá tímabundið með rigningu syðra en slyddu fyrir norðan. Hiti verður með mildara móti um helgina, en útlit fyrir að það kunni að breytast um miðja næstu viku og að loks geri almennilegt vetrarveður, sem vissulega er í takt við árstíðina,“ skrifar veðurfræðingur Veðurstofu Íslands.

Veðurspá næsta sólarhring:

Vaxandi austanátt og fer að rigna syðst með morgninum, 10-18 m/s og víða rigning síðdegis, hvassast syðst, en sums staðar slydda norðvestanlands. Dregur úr vindi og úrkomu í kvöld og nótt, fyrst sunnan til. Norðaustan 8-13 og él N-til framan af morgundegi, en annars hæg breytileg átt og úrkomulítið. Hiti 0 til 7 stig í dag, hlýjast við suðurströndina, en kólnar fyrir norðan á morgun.

Á laugardag:
Norðaustan 5-10 m/s og él norðanlands fyrripartinn, en annars yfirleitt hæglætisveður og úrkomulítið. Hiti 2 til 6 stig syðra, en kringum frostmark fyrir norðan.

Á sunnudag:
Stíf vestlæg eða breytileg átt og talsverð rigning, en slydda fyrir norðan. Rofar til seinni partinn. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Suðvestanstrekkingur og víða él, en bjartviðri fyrir austan. Kólnar í veðri.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir vaxandi austan- og norðaustanátt með snjókomu eða slyddu fremur svalt veður.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Líkur á ákveðinni norðanátt með snjókomu eða éljum og harðnandi frosti á öllu landinu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert