Umræðan er alltaf fyrsta skrefið

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Edda Hermannsdóttir.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Edda Hermannsdóttir. Ljósmynd Haraldur Guðjónsson

Þær Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir standa að bókinni Forystuþjóð sem kom út í gær, en í henni eru viðtöl við fólk úr ýmsum áttum sem varpa ljósi á stöðu kynjanna. Í inngangi bókarinnar segja þær Edda og Ragnhildur að sögurnar í henni svari vissulega einhverjum spurningum „en fyrst og fremst vonum við að þær hristi upp í skoðunum fólks og varpi ljósi á ýmsar leiðir í átt að kynjajafnrétti“.

Fjölbreyttur hópur viðmælenda

Ragnhildur segir að hugmyndin að bókinni hafi kviknað fyrir ári þegar þær hafi setið á fundi þar sem nokkrir karlmenn hafi verið að tala um jafnréttismál og þar hafi þær heyrt viðhorf og skoðanir sem þær hafi ekki heyrt áður í þeirri umræðu. Síðastliðið ár hafa þær stöllur síðan safnað efni í bókina með áherslu á að hópurinn sem rætt væri við yrði sem fjölbreyttastur.

- Hvaða sjónarmið voru það sem þið höfðuð ekki heyrt áður?

„Okkur fannst eins og karlar hefðu verið hálf hræddir við að stíga inn á þetta eldfima svæði, að það væri dálítið undirlagt af konum, væri okkar yfirráðasvæði ef það má kalla það svo. Karlar hafa miklar skoðanir á þessu máli og auðvitað skiptir það okkur öll miklu máli, þrátt fyrir að það halli á konur, að þeirra skoðanir fái líka að heyrast. Við áttuðum okkur á því að þarna væru raddir sem hugsanlega fengju kannski ekki að heyrast og þyrfti að ýta aðeins undir að heyrðust enn frekar.“

Barist fyrir enn meiri breytingum

„Þorri þjóðarinnar og stjórnmálaleiðtogar eru sammála því að hér skuli ríkja kynjajafnrétti – hvers vegna tekur það okkur þá svo langan tíma? Hvers vegna höfum við ekki enn náð takmarkinu? Konur eru ekki nema níu prósent framkvæmdastjóra stórra íslenskra fyrirtæka og í nýrri úttekt Kjarnans kemur vel í ljós hve valdalitlar konur eru í fjármálageiranum enn þann dag í dag. Það er eitt að aðhyllast jafnrétti en annað að gera eitthvað til þess að hlutirnir breytist. Með því að gera þessa bók erum við að reyna að berjast fyrir enn meiri breytingum.“

- Í innganginum að Forystuþjóð hvetjið þið til umræðu karla og kvenna um jafnréttismál – er það leiðin til breytinga?

„Umræðan er alltaf fyrsta skrefið en síðan þarf að eiga sér stað mikil viðhorfsbreyting. Við fundum fyrir því við gerð bókarinnar og það sést í henni að það er mikill munur á því hvernig kynslóðirnar hugsa. Unga fólkið sem við tókum viðtöl við hugsar á annan hátt en eldra fólkið. Það er rétt að taka það fram að við erum komin gríðarlega langt í þessum málum, það hefur mikið áunnist en það má ekki stoppa þar. Þetta er ekki orðið nógu gott.“

Hollt og gott að hlusta á önnur sjónarmið

Edda segir að ýmislegt beri á góma í viðtölum í bókinni, til að mynda jafnlaunavottun, sem er einmitt mikið rædd um þessar mundir, karllæg notkun tungumálsins, kynjaviðhorf í teiknimyndum sem ætlaðar eru börnum og kynjakvótar, svo dæmi séu tekin, en einnig birtist mjög misjafnar skoðanir á þeim málum. „Við Ragnhildur erum sammála um það að þessi viðtöl hafi hrist verulega upp í okkar hugmyndum um jafnrétti og við vonum einmitt að bókin hristi upp í fólki, því bara það að hlusta á önnur sjónarmið er alltaf hollt og gott fyrir mann.“

Viðmælendur þeirra Ragnhildar og Eddu eru úr ýmsum áttum og á ýmsum aldri og kemur því varla á óvart að þeir séu ekki sammála um leiðir þótt þeir séu sammála um markmið. „Það er greinilegt að þrátt fyrir að við séum nánast öll sammála um að hér eigi að ríkja jafnrétti erum við mjög ósammála um það hvernig við eigum að ná því takmarki,“ heldur Raghildur áfram. „Svo virðist sem sá ágreiningur sé Þrándur í Götu og þess vegna gangi svona hægt að ná settu markmiði.

Mér finnst mjög mikilvægt í þessari umræðu að kynjajafnrétti snýst ekki um það að allar konur eigi að verða forstjórar eða framkvæmdastjórar. Við þurfum að passa okkur að gera ekki kröfur um að allar konur séu að sækja fram í atvinnulífinu. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um að þær hafi jafna möguleika og karlmaðurinn sem stendur við hliðina á þeim.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert