Niðurstöður úr lífsýnunum farnar að berast

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir lífsýni tekin að berast í rannsókninni …
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir lífsýni tekin að berast í rannsókninni á máli Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstöður eru teknar að berast úr þeim sýnum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi utan til rannsóknar vegna andláts Birnu Brjánsdóttur. Þetta staðfesti Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsóknina á máli Birnu, sem fannst látin í fjörunni við Selvogsvita 22. janúar, í samtali við mbl.is.

„Þau eru aðeins farin að berast,“ segir Grímur. „Við erum búin að fá einhverjar niðurstöður, en við erum alls ekki búin að fá úr öllu.“ Grímur kveðst þó ekki vilja tjá sig um hvers konar sýni sé að ræða, né heldur hver niðurstaðan úr þeim hafi verið.

„Hvert og eitt sýni er einn þáttur í að púsla þessu saman“

Mbl.is hafði eftir Grími í síðustu viku að töluvert magn muna og sýna hefði verið sent utan til lífsýnatöku og greiningar. Spurður hvort niðurstöðurnar sem borist hafa skýri þá mynd sem lögregla hefur af málinu, segir hann: „Hvert og eitt sýni er einn þáttur í að púsla þessu saman.“ 

Maðurinn sem situr í gæsluvarðahaldi grunaður um að vera valdur að láti Birnu var ekki yfirheyrður nú um helgina. Ekkert hefur heldur verið ákveðið um það hvenær hann verður yfirheyrður næst, að sögn Gríms. Maðurinn var síðasta fimmtudag úr­sk­urðaður í áfram­hald­andi gæslu­v­arðhald í tvær vik­ur vegna rann­sókn­ar­hags­muna, en hann hefur nú setið í einangrun í rúman mánuð.

Grímur segir þá rannsóknarhagsmuni enn vera til staðar.  „Við erum með tvö mál til rannsóknar, annars vegar mandrápsmálið og hins vegar fíkniefnamálið og það eru rannsóknarhagsmunir í málinu sem við eigum eftir að fara yfir,“ segir hann.

„Við munum þó klárlega freista þess að ljúka þessari rannsókn sem allra fyrst þannig að ákæruvaldið geti fengið gögnin og tekið ákvörðun,“ segir Grímur. Hann geti þó ekki sagt til um hvenær það verði, en það séu alla vegna einhverjar vikur í að rannsókn ljúki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert