Vill þjóðarátak í húsnæðismálum

Samiðn hefur áhyggjur af skorti á íbúðarhúsnæði.
Samiðn hefur áhyggjur af skorti á íbúðarhúsnæði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir miklum áhyggjum vegna viðvarandi skorts á íbúðarhúsnæði sem birtist meðal annars í hækkandi í íbúðaverði og hárri húsaleigu.

Í ályktun stjórnarinnar, sem var samþykkt á fundi nýverið, eru ríkið, sveitarfélög og vinnumarkaðurinn hvött til þjóðarátaks í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

„Til að mæta þörfum markaðarins þyrfti að byggja 3.000 til 4.000 íbúðir umfram það sem  framleitt er til að mæta árlegri þörf. Verði ekki brugðist við með skipulögðum hætti mun húsnæðis- og leiguverð halda áfram að hækka og verða almenningi óbærilegt,“ segir í ályktuninni.

Iðnaðarmenn að störfum.
Iðnaðarmenn að störfum. mbl.is/Rax

„Samiðn kallar eftir þjóðarátaki í húsnæðismálum þar sem ríkið, sveitarfélög og vinnumarkaðurinn taki saman höndum og tryggi að hér verði fundnar lausnir sem tryggi í senn nægt framboð af hentugu húsnæði og húsnæðiskostnaður almennings verði innan  eðlilegra marka.

Ef ekki kemur til sérstaks átaks í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þeim svæðum sem þörfin er mest, má gera ráð fyrir  að almenningur búi við hátt íbúðar- og leiguverð um ókomna framtíð.“

Samiðn skorar á Alþingi.
Samiðn skorar á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áréttar ályktun um niðurstöðu kjararáðs

Miðstjórnin áréttar einnig fyrri ályktun þar sem niðurstöðu kjararáðs um hækkun launa alþingismanna og æðstu embættismanna er mótmælt.

„Miðstjórnin skorar á Alþingi að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar og færa launabreytingar til samræmis við rammasamkomulag sem tengt er við SALEK,“ segir í ályktuninni.  

„Tillögur forsætisnefndar um að fella niður eingreiðslur er yfirklór og undanbrögð sem ekki sæmir Alþingi og dregur úr trúverðugleika þess og eru ekki til þess fallnar að skapa sátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert