Flugvél brotlenti á verslunarmiðstöð

Slysið varð í Melbourne í Ástralíu.
Slysið varð í Melbourne í Ástralíu. Kort/Google

Flugvél með fimm manns innanborðs brotlenti á verslunarmiðstöð í Melbourne í Ástralíu. Verslunarmiðstöðin, sem er rétt við Essendon-flugvöllinn, var ekki opin þegar slysið varð. Svartan reyk lagði upp af flugvélinni. 

Flugvélin var af gerðinni Beechcraft. 

„Þetta lítur út fyrir að vera hrikalegt slys,“ segir Lisa Neville lögreglustjóri við blaðamenn. Ekki var hægt að greina nánar frá orsökum slyssins.  Talið er að alvarleg vélarbilun hafi orðið í vélinni en neyðarkall barst frá flugmanninum skömmu eftir flugtak.

Þá hefur ekki verið hægt að greina frá því hvort allir um borð hafi látist eða hvort einhverjir hafi komist lífs af. Verslun sem nefnist Spotlight er þar sem vélin brotlenti í verslunarmiðstöðinni. Talskona verslunarinnar segir að allir hafi sloppið heilir á húfí.

Neville segir að svo virðist sem fólkið hafi verið að fljúga til King Island á Tasmaníu, að því er segir í frétt á vef BBC. 

Þar segir að Essendon sé lítill flugvöllur sem minni vélar noti. Hann er um 13 km norðvestur af miðborg Melbourne. 

Sjónvarvottur segist hafa verið að bíða eftir að verslunarmiðstöðin opnaði þegar vélin hrapaði. 

„Það sást appelsínugul sprenging og síðan reykur,“ segir maðurinn og bætir við að slökkvilið og sjúkralið hafi komið strax á eftir. 

Lögreglan hefur rýmt stórt svæði og lokað nærliggjandi götum vegna slyssins. 

Flugvél af gerðinni Beechcraft.
Flugvél af gerðinni Beechcraft. Ljósmynd/JustCollecting
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert