Ætla að kæra kosninguna

Framkvæmd atkvæðagreiðslunnar um kjarasamning sjómanna verður kærð.
Framkvæmd atkvæðagreiðslunnar um kjarasamning sjómanna verður kærð. mbl.is/Eggert

„Það leið of stuttur tími frá því að kjarasamningur sjómanna var undirritaður og hann kynntur og síðar settur í atkvæðagreiðslu. Tímamörkin samkvæmt almennum reglum þar um voru ekki virt,“ segir Heiðveig María Einarsdóttir, viðskiptalögfræðingur og sjómaður, sem vinnur í því fyrir hönd hóps sjómanna að útbúa kæru á framkvæmd atkvæðagreiðslu um kjarasamning sjómanna til Félagsdóms. Einnig verður óskað eftir áliti frá ASÍ um efnið.  

Samn­ing­ar í kjara­deilu sjó­manna við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi náðust á þriðja tím­an­um aðfaranótt laugardagsins 18. febrúar. Eftir það tók við kynning á samningnum hjá aðildarfélögunum á laugardeginum. Atkvæðagreiðsla hófst strax í kjölfarið. Samningurinn var samþykktur naumlega á sunnudagskvöldinu 19. febrúar eftir atkvæðagreiðslu. Á kjörskrá voru 2.214 manns og 1.189 greiddu at­kvæði, 52,4% þeirra sem greiddu at­kvæði samþykktu samn­ing­inn en 46,9% greiddu at­kvæði gegn hon­um. Verkfall sjómanna stóð yfir í tæpar 10 vikur. 

Tímamörkin voru ekki virt bæði hvað varðar vinnuréttarlöggjöfina og reglugerð ASÍ, að sögn Heiðveigar. „Þetta var allsherjaratkvæðagreiðsla á kjörstað og viðmiðunarregla fyrir það er að að samningurinn sé kynntur að lágmarki í sjö daga og tveir dagar fari í kosningu á kjörstað. Þó er heimilt að stytta það niður í tvo daga í kynningu og tvo daga í kosningu ef samningsaðilar eru sammála þar um,“ segir Heiðveig. Að lágmarki hefði þetta því þurft að taka fjóra sólarhringa.  

Heiðveig bendir á að misjafnt hafi verið hvernig félögin hafi hagað kynningu á samningnum. Hún segir dæmi um að fólk hafi ekki þurft að framvísa skilríkjum við atkvæðagreiðslu og hafi mögulega kosið oftar en einu sinni.  

Vilja samning sem er hafinn yfir allan vafa

„Aðalmálið í þessu er að eftir þetta langa verkfall vilja sjómenn vera með samning sem er hafinn yfir allan vafa,“ segir Heiðveig og bætir við: „Framkvæmd kosningarinnar er ekki til að auka traust milli útgerðarinnar og sjómanna. Það er mín reynsla að sjómenn eru margir hverjir hræddir við yfirmenn sína og það ríkir enn ákveðinn þrælsótti.“

Hún segir að ákveðið hafi verið að senda inn beiðni um álit eða jafnvel bindandi úrskurð frá miðstjórn ASÍ sem Sjómannasambandið er aðili að. Einnig verður Sjómannasambandinu stefnt fyrir Félagsdóm til þess að fá úr því skorið hvort framkvæmdin á atkvæðagreiðslunni hafi verið lögmæt.

Stefnt er að því að leggja kæruna fyrir í þessari viku og biðja um álitið frá ASÍ. Eftir það verði Félagsdómur væntanlega kallaður saman. „Það mætti kalla þetta svokallað viðurkenningarmál þar sem þetta hefur ekki verið gert áður,“ segir Heiðveig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert