Tuttugu bílar út af eða fest sig

Lögreglan hefur haft í nógu að snúast í dag.
Lögreglan hefur haft í nógu að snúast í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Tuttugu bílar hafa annaðhvort farið út af vegum eða fest sig á þeim víðs vegar um Suður- og Suðausturland frá klukkan 7 í morgun.

Að sögn Frímanns Baldurssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, hafa þetta mestmegnis verið erlendir ferðamenn sem hafa lent í vandræðum. Í sumum tilfellum hafa björgunarsveitir þurft að koma til aðstoðar.

Leiðindaveður í Öræfum

Frímann segir að fjórir bílar hafi lent í vandræðum í Öræfum við Hof, auk þess sem 16 til viðbótar hafi verið í vanda víðs vegar á Suðurlandsveginum, allt frá Hellisheiði austur á Höfn.

Hann segir að leiðindaveður sé í Öræfum, þæfingur á vegum og annars staðar krap eða hálka. Talsverður éljagangur er á svæðinu og verið er að moka snjó af vegunum.

Vegir víða lokaðir á morgun

Frímann reiknar með því að vegir verði víða lokaðir í einhvern tíma á morgun vegna veðurs, þar á meðal Hellisheiði, Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði og undir Eyjafjöllum.

„Það má búast við töfum eða lokunum á morgun vegna veðurs. Ég vil biðja þá sem hyggja á ferðalög að fylgjast vel með,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert