Fáir á ferli á Reykjanesi

Kort á vef Vegagerðarinnar.

Veðrið er orðið mjög slæmt á Suðurnesjum og afar fáir að ferli, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum. Búið er að loka öllum helstu leiðum og virðist sem fólk sé að fara að óskum viðbragðsaðila um að halda kyrru fyrir.

Eitthvað hefur verið um fok á lausamunum að sögn varðstjóra og hafa björgunarsveitarmenn komið fólki til aðstoðar. 

Reykjanesbrautinni og Grindavíkurvegi var lokað um hádegi en stefnt er að opna vegina klukkan 17. Þar eru 25 metrar á sekúndu og slær í 36 metra í hviðum. 

Fimm flugferðum sem fara áttu frá Keflavíkurflugvelli á tímabilinu 11:30 til 16.45 hefur verið aflýst. 

Áætlað er að þrjár farþegaþotur fari í loftið klukkan 17 en því flugi gæti verið seinkað þar sem ekki er hægt að komast á flugvöllinn frá höfuðborgarsvæðinu fyrr en um það leyti vegna lokunnar Reykjanesbrautar.

Seinkanir eru á komum flugvéla til Keflavíkur en næsta flugvél sem þar lendir er á vegum British Airways og á að lenda klukkan 14:15. Næsta flugvél sem lendir þar á eftir á að lenda klukkustund síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert