Í draumaheimi væri enginn sérskóli

Mögu­leiki er á að Arn­ar­skóli verði í Garðabæ en ósk …
Mögu­leiki er á að Arn­ar­skóli verði í Garðabæ en ósk þeirra sem að skól­an­um standa er að hann deili hús­næði með al­menn­um grunn­skóla. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Hópur fólks hyggst stofna nýjan skóla, Arnarskóla, með þarfir fatlaðra barna í huga. Skólinn verður sjálfseignarstofnun og mun bjóða heildstæða þjónustu fyrir fötluð börn með fjölþættar þarfir og segja þeir sem standa að stofnum skólans að mikil þörf sé á slíkum skóla hér á landi. 

„Það er ekki til skóli á landinu sem vinnur eftir þeirri aðferð sem við munum vinna eftir. Við ætlum að vinna eftir aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar og bjóða upp á að fólk geti verið með börnin sín í skólanum allan daginn, allan ársins hring, að undanskildum lögboðnum frídögum. Þá þurfa foreldrar ekki að fara úr vinnu til að fara með börnin til að mynda í talþjálfun,“ segir María Sigurjónsdóttir, ein þeirra sem stendur að baki stofnun skólans, í samtali við mbl.is.

Leita til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

Stofnendur eru í samskiptum við sveitarfélög með það að leiðarljósi að finna skólanum húsnæði en vonir okkar standa til að við geta verið í almennum skóla eða að minnsta kosti í samvinnu við almennan skóla. „Við erum að reyna að finna sveitarfélag sem er tilbúið að leigja okkur húsnæði,“ segir María en leitað er til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hún segir að í draumaheimi væru fötluð börn ekki í sérskóla, heldur væru þau einfaldlega í almennum skólum og fengju þjónustu eftir sínum þörfum. „Skóli án aðgreiningar þýðir það að allir geti verið í almennum skóla og að það eigi ekki að aðgreina einhverja ákveðna hópa. Í draumaheimi þá væri það alltaf þannig; að við værum ekki með neina í sérskóla.“

Draumurinn ekki raunhæfur kostur

Arnarskóli ætlar að bjóða fólki að hafa börnin sín í skólanum allan daginn, allan ársins hring en það verður sem sagt einnig boðið upp á frístund og sumarfrístund og samkvæmt Maríu mun það létta á börnunum, foreldrum og vinnuveitendum. „Við vonumst til þess að geta boðið upp á talþjálfun, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun í skólanum og mögulega fleira til að auðvelda líf barnanna og fjölskyldna þeirra,“ segir María.

Þrátt fyrir að draumurinn sé að allir gætu verið í almennum skóla segir María að staðan sé sú í dag að það sé ekki raunhæft. „Við sjáum ekki þörfum þessara einstaklinga mætt í almenna skólakerfinu og þess vegna erum við að þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert