Kettir í sjálfheldu í snjóþyngslum

Snjóþyngslin sem landsmenn hafa fundið fyrir á undanförnum dögum hafa bitnað á ferfætlingum ekki síður en okkur mannfólkinu. Kisan Indjánafjöður var föst undir sólpalli í Hafnarfirði frá laugardegi fram á mánudagskvöld og tilkynnt hefur verið um fleiri sambærileg tilfelli.

Að sögn Maríu Þorvarðardóttur eiganda Indjánafjaðrar og félaga í Dýraverndunarfélagi Hafnarfjarðar var það hin kisan hennar sem kom henni á sporið um hvar Indjánafjöður væri falin þegar hún tók að leita að henni en hún hafði farið undir sólpall við hús nágrannans og ekki komist út þegar snjórinn hafði fallið á aðfararnótt sunnudags.

María segir að í það minnsta fjögur svipuð tilfelli hafi komið upp eftir snjókomuna miklu og hún hvetur fólk sem sé með sólpalla að tryggja að dýr sem gætu verið föst þar undir komist í burt.

mbl.is hitti á Maríu og Indjánafjöður í dag en hún var hálf hvekkt eftir innilokunina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert