Enn og aftur í farbann

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að útlendingur sem var dæmdur í fangelsi vegna fíkniefnamáls hér á landi sæti áfram farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti.

Maðurinn var í september dæmdur í fimm ára fangelsi í héraðsdómi fyrir stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa á árinu 2015 í félagi við fjóra aðra flutt inn til landsins 19,5 kíló af amfetamíni og rúmlega 2,5 kíló af kókaíni. Taldi dómurinn ljóst að efnin væru ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni.

Maðurinn neitaði sök. Ríkissaksóknari áfrýjaði máli mannsins til Hæstaréttar og fór fram á þyngri refsingu.

Maðurinn var í gæsluvarðhaldi frá því 29. september 2015 til 22. desember sama ár. Hafði hann þá verið í varðhaldi í tólf vikur án þess að mál hefði verið höfðað á hendur honum. Af þeim sökum var ekki hægt að úrskurða hann áfram í gæsluvarðhald, segir í úrskurði héraðsdóms um farbannið. Frá þeim degi sem hann lauk varðhaldi hefur hann sætt farbanni. Hæstiréttur hefur nú í sex skipti staðfest úrskurði um farbann í málinu.

„Með vísan til alvarleika þeirra brota sem dómfelldi hefur nú verið sakfelldur fyrir í fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness og með vísan til þess að hinn dómfelldi er erlendur ríkisborgari sem hefur engin sérstök tengsl við landið sé það mat ríkissaksóknara að þeir hagsmunir að tryggja nærveru dómfellda vegna fullnustu refsingar krefjist þess að dómfelldi sæti áfram farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti eða eftir atvikum þar til endanlegur dómur gengur,“ segir í úrskurði héraðsdóms. „Að mati ákæruvaldsins sé ljóst að dómur í Hæstarétti muni ekki liggja fyrir eftir fjórar vikur og lög setji ekki skorður við því að dómfelldir menn séu úrskurðaðir eða dæmdir í farbann í lengri tíma en fjórar vikur í senn við þessar aðstæður, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála. Við þessar aðstæður hafi tíðkast að fara fram á farbann eða gæsluvarðhald í 12 vikur í senn eða þar til dómur Hæstaréttar gengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert