„Við segjum nei“

Stjórnvöld hafa skapað grafalvarlega stöðu á húsnæðismarkaði með lélegri hagstjórn sem hefur einkennst af „lýðskrumskenndum skammtímalausnum eða því að hunsa vandamálin gjörsamlega.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ungum pírötum, sem segja ungt fólk í dag spyrja sig að því hvort þau verði „eignalausa kynslóðin.“

„Við segjum nei. Við köllum eftir tafarlausum aðgerðum til þess að bæta stöðuna á húsnæðismarkaðnum. Það er engin töfralausn, ekkert eitt kosningaloforð sem reddar þessu, það þarf aðgerðir þar sem aðilar frá bæði ríki og sveitarfélögum vinna höndum saman til að bæta ástandið þverpólitískt. Enn fremur krefjumst við þess að í þeirri vinnu verði þarfir og vilji ungs fólks höfð til viðmiðunar, því hagsmunir þess hafa verið gjörsamlega hunsaðir árum saman. Við þurfum að forðast skammtímalausnir sem miða að því að auka fjölda einbýlishúsa í úthverfum og skapa þess í stað aðstæður þar sem fólk getur valið sér mismunandi tegundir af húsnæði,“ segir í tilkynninu Ungra pírata.

Þeir standa, ásamt ungliðahreyfingum Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins, að málfundi um húsnæðismarkaðinn í Stúdentakjallaranum annað kvöld kl. 20.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert