Senda málið til héraðssaksóknara

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur að mestu lokið rannsókn á hvarfi og andláti Birnu Brjánsdóttur. Á föstudag er stefnt að því að senda málið til héraðssaksóknara sem mun svo taka ákvörðun um ákæru.

Grænlendingur sem situr í gæsluhaldi grunaður um að hafa orðið Birnu að bana neitar sök. Landi hans, sem sat í gæsluvarðhaldi um tíma vegna málsins, hefur enn réttarstöðu sakbornings. 

Ekki má hafa fólk í gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur áður en ákæra er gefin út. Maðurinn hefur nú setið í varðhaldi í níu vikur. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að þegar lögregla ljúki rannsókn og komi málinu áfram til saksóknara sé það hans að ákveða um framhald varðhaldsins. 

Verði ákæra gefin út innan tímarammans verður hægt að framlengja varðhaldið.

Enn með réttarstöðu sakbornings

Spurður um hinn manninn sem sat í varðhaldi um tíma vegna málsins segir Grímur að réttarstaða hans hafi ekki breyst. Ákvörðunarvald um hvort hún breytist færist nú yfir til héraðssaksóknara. Grímur segir að oft sé það þannig að réttarstöðu fólks sé ekki breytt fyrr en ákæra er gefin út.

Grímur vill ekki segja hver þáttur þessa manns er í máli Birnu. Í fyrstu sagði lögreglan að þeir væru í haldi vegna sama sakarefnis. Öðrum þeirra var síðar sleppt úr haldi en hefur enn réttarstöðu sakbornings.

Birna hvarf þann 14. janúar. Hún sást síðast á eftirlitsmyndavél í miðborg Reykjavíkur. Sjónir lögreglu beindust fljótlega að skipverjum á grænlenska togaranum Polar Nanoq og voru tveir þeirra handteknir í tengslum við málið um borð í skipinu þann 17. janúar. 

Birna fannst látin 21. janúar. Hún var tvítug að aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert