Segir erfitt að byggja hverfi í flýti

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri hefur áhyggjur af fasteignasjóðunum.
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri hefur áhyggjur af fasteignasjóðunum. Árni Sæberg

„Hann sagðist ætla að vinna þetta hratt. Það eru aðgerðir sem hægt er að taka einn, tveir og þrír,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar um fund forsvarsmanna sveitafélaga og Þorsteins Víglundssonar ráðherra um húsnæðismál í dag.

„Ég nefndi meðal annars greiðslumatið, það býður enginn unga fólkinu greiðslumat þegar það er að fara að leigja. Það getur verið að leigja fyrir 200-240 þúsund á mánuði en síðan þegar það ætlar að kaupa sér eign og fer í greiðslumat hjá lífeyrissjóðum eða bönkum þá fær það höfnun,“ segir Ásgerður. „Það þarf líka að endurskoða húsnæðisbæturnar, að samræma kerfið þannig að aðrar bætur skerðist ekki þegar það fær húsnæðisbætur. Það gleymist oft að skoða öll kerfin saman.“

Erfitt að stýra hver innleysir hagnaðinn

Í umræðu um húsnæðisvandann hefur borið á tali um að hluti vandans sé stór staða fasteignafélaga á markaðinum. Ásgerður tekur undir að það sé áhyggjuefni. 

„Ég hef áhyggjur af stækkun fasteignafélaga þegar ég heyri að þau séu að kaupa heilu stigagangana. Á meðan sitja þeir eftir sem eru að reyna að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð á neikvæðum bankavöxtum, svo það dugar ekki að leggja fyrir og safna þegar þetta hækkar svo mikið.“ 

Takmarkað framboð lóða er einn af þeim þáttum sem hafa stuðlað að hækkun húsnæðisverðs en Ásgerður segir að ekki sé hlaupið að því að auka framboðið verulega. 

„Við ræddum um að ef við gefum lóð sem verktakar kaupa og selja eftir framboði og eftirspurn, þá hirða þeir lóðaverðið, það er ekki að fara til þeirra sem eru að kaupa. Og svo er spurning, á sá sem kaupir fyrstur íbúðina að hagnast þegar hann selur hana aftur. Það er erfitt að stýra því hver innleysir þennan hagnað þegar allt er að hækka,“ segir Ásgerður. 

Hún bendir einnig á að erfitt sér að byggja upp stórhverfi í flýti vegna þess að þjónusta eins og götur, göngustígar, skólar og sundlaugar þurfi að fylgja uppbyggingunni samhliða. „Sveitafélögin geta ekki gert þetta einungis með útsvari íbúa og þess vegna þurfa þau að fá gatnagjöld, eða innviðagjöld eins og þau eru kölluð.“

Lífeyrissjóðir eigi hlut í íbúðinni

Þá telur hún að lífeyrissjóðirnir eigi að leika stærra hlutverk til að koma til móts við ungt fólk sem hefur ekki efni á útborgun. 

„Þetta eru framtíðarsjóðfélagar sem þarf að aðstoða með því að veita lán. Lífeyrissjóðirnir gætu átt 20% sem fjárfestingu, lánað 80% og þá er búið að fjármagna þessa útborgun sem fólk á ekki fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert