Reyndi ítrekað að hafa samband

Alfreð Örn Clausen.
Alfreð Örn Clausen. Ljósmynd/Saksóknarinn í San Bernandino-sýslu

„Ég reyndi ítrekað að hafa samband við þá,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Alfreðs Clausen, í samtali við mbl.is. Mál Alfreðs vakti mikla at­hygli fyr­ir um tveim­ur árum en þá lýstu banda­rísk stjórn­völd eft­ir Al­freð í tengsl­um við um­fangs­mikið fjár­svika­mál.

Ef Al­freð snýr aft­ur til Banda­ríkj­anna verður hann hand­tek­inn þar í landi en bandarísk stjórnvöld hafa þó ekki reynt að fá hann framseldan þar sem engir samningar um framsal eru í gildi milli Íslands og Bandaríkjanna.

Vilhjálmur segist ítrekað hafa reynt að hafa samband við saksóknaraembættið í San Bernardino á sínum tíma, bæði með bréf- og tölvupósti á embættið og á saksóknara sjálfan, auk þess sem hann hafi reynt að hringja. Enginn á vegum embættisins hafi þó haft samband til baka.  

Í svari við fyrirspurn Rúv segir John Vega, yfirlögregluþjónn hjá saksóknaranum í San Bernardino, að það sé embættinu mjög mikilvægt að ná fram dómi yfir Alfreð. Aftur á móti hafi ekkert heyrst frá Alfreð né lögmanni hans og engin tilraun hafi verið gerð til að hafa samband við saksóknaraembættið. Þetta segir Vilhjálmur ekki vera rétt.

„Það er bara rangt. Ég sendi þeim bæði bréf með sniglapósti og eins tölvupóst á saksóknarann beint,“ segir Vilhjálmur, auk þess sem hann hafi reynt að hafa samband símleiðis. „Þannig að erindið fór á embættið, þannig að ég veit ekki hvað málið er.“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert