Tjúasveitin leitar stuðnings

Tjúasveitin (f.v.): Ísól, Heba, Mikki og Max. Alla vantar ný …
Tjúasveitin (f.v.): Ísól, Heba, Mikki og Max. Alla vantar ný heimili en Mikki hefur fengið yfir þrjátíu umsóknir.

Dýrahjálp Íslands hóf nýverið söfnun fyrir dýralæknakostnaði vegna fimm Chihuahua-hunda sem eru í leit að nýjum eigendum. Tvær systur áttu hundana en gátu ekki séð fyrir þeim lengur vegna erfiðra veikinda.

„Við erum núna á fullu að reyna að finna ný heimili fyrir þá. Það eru komnar upp auglýsingar fyrir alla hundana,“ segir Sonja Stefánsdóttir, sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp og umsjónarmaður hundanna. Dýrahjálp hefur gefið hundunum nafnið Tjúasveitin, sem er tilvísun í tegund hundanna og Hvolpasveitina. Sonja segir að einhverjar umsóknir hafi nú þegar borist og þá sérstaklega í Mikka, sem er yngstur.

Þurftu á mikilli umönnun að halda

„Þegar við fengum þá voru þeir með allt of langar klær, þeir voru með flækjur og skítugir og þurftu að fara í snyrtingu. Í heilsufarsskoðun kom síðan í ljós að tennurnar voru mjög slæmar í þeim öllum, nema þeim yngsta, Mikka,“ segir Sonja. „Fjórir af fimm þurftu að fara í tannhreinsun og tanntökur. Það þurfti röntgenmyndir af þeim og svo voru sumir það gamlir að þeir þurftu að fara í blóðprufur áður en þeir voru svæfðir þannig að kostnaðurinn safnaðist hratt saman.“ Dýrahjálp stendur því fyrir söfnun til að borga fyrir dýralæknakostnaðinn, sem er yfir hálfri milljón. Tíkurnar tvær Heba og Hera þurfa að fara í miklar tanntökur vegna skemmda. „Þær verða hálftannlausar greyin, tennurnar eru svo skemmdar. Það er mun betra að taka tennurnar en að láta þær bíta í skemmdar tennur, þótt það hljómi illa.“

Spurð um skapgerð hundanna segir Sonja þá einstaklega geðgóða. „Þeir eru allir alveg ótrúlega blíðir og góðir. Ísól er sú eina sem sker sig úr, hún er mjög sjálfstæð. Annars eru þeir allir algjörar klessur og vilja helst vera í fanginu á manni. Þeir bera alveg nafn með rentu sem kjölturakkar. Rosalega geðgóðir þótt þetta séu eldri hundar, þannig að ég trúi að þeir muni ekki eiga erfitt með að finna sér ný heimili.“ Sonja hvetur alla þá sem telja sig hafa burði til að taka við einhverjum hundanna til að skrá sig á dyrahjalp.is. Hundarnir eru nú hjá fósturfjölskyldum og hvetur Sonja einnig þá sem hafa áhuga á að gerast fósturfjölskylda hjá Dýrahjálp að skrá sig.

Söfnun í gangi

Dýrahjálp Íslands áætlar að dýralæknakostnaður fyrir hundana sé um 500.000 kr. Átakið hefur farið vel af stað og safnast hafa 195.000 kr. Hægt er að leggja inn á reikning Dýrahjálpar 0513-26-4311, kt. 620508-1010 og skrifa „Tjúasveitin“ í athugasemd.

Leitað er að nýjum eigendum að tíkinni Heru.
Leitað er að nýjum eigendum að tíkinni Heru.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert