„Ekkert venjulegt“ við handtöku í skipi

Skipverjinn á Polar Nanoq er hann var leiddur fyrir dómara …
Skipverjinn á Polar Nanoq er hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem hafði umsjón með rannsókninni á máli Birnu Brjánsdóttur, segir að útgáfa ákæru á hendur Thomas Møller Olsen fyrir að hafa orðið Birnu að bana sé í samræmi við það sem rannsóknardeild lögreglunnar bjóst við.

„Það er augljóst að héraðssaksóknari telur að það séu meiri líkur en minni til sakfellingar. Við erum sammála því að gögnin hafi verið þannig að bent hafi til sektar þessa manns sem hefur verið í haldi,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn. mbl.is/Árni Sæberg

Kemur ekki á óvart varðandi hinn manninn

Olsen var ákærður fyrir manndráp og stórfellt fíkniefnalagabrot. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi í 10 vikur. Grímur vill ekki tjá sig um það sem kemur fram í ákærunni en hún verður birt nokkrum dögum eftir að búið er að birta hana fyrir sakborningi.

Hvað varðar hinn manninn sem var sleppt lausum úr haldi lögreglu segir Grímur að það komi sér ekki á óvart að héraðssaksóknari hafi ákveðið að ákæra hann ekki.

Spurður út í fjölda lífssýna sem héraðssaksóknari fékk með málsgögnunum segir Grímur að þau hafi verið „nokkuð mörg“ en hann getur ekki gefið upp fjölda þeirra.

Frá leitinni að Birnu Brjánsdóttur í Hafnarfirði.
Frá leitinni að Birnu Brjánsdóttur í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tvískipt mál 

Hann kveðst vera ánægður með rannsóknina á máli Birnu. „Ég tel að þetta hafi verið rétt framkvæmd rannsókn og eðlilega,“ segir hann og telur að í stórum dráttum sé ekkert sem lögreglan hefði getað gert öðruvísi við hana.

„Þetta mál var mjög áberandi og það var fylgst mikið með því af fjölmiðlum og almenningi. Það var svolítið tvískipt. Öll áherslan var á leitina framan af og svo á rannsóknina. Þetta er að mörgu leyti sérstakt mál hvað það varðar. Það var mikill áhugi á rannsókninni.“

Lögreglan flytur skipverja af Polar Nanoq.
Lögreglan flytur skipverja af Polar Nanoq. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var þetta mál erfiðara en önnur sem þú hefur komið að?

„Þetta er viðamikið mál. Það er ekkert venjulegt kannski að handtaka menn um borð í skipi. Það var eitt sem var sérstakt við þetta. En mér fannst allir starfsmenn lögreglu hafa staðið sig með prýði. Við fengum aðstoð frá tollgæslu og landhelgisgæslu og það voru margir sem komu að þessu. Mér fannst sú samvinna ganga vel,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert