Töldu alla skíða á eigin ábyrgð

Á skíðum í Böggvisstaðafjalli. Svæðið verður lokað út vikuna, að …
Á skíðum í Böggvisstaðafjalli. Svæðið verður lokað út vikuna, að minnsta kosti. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Stjórn Skíðafélags Dalvíkur mun funda með starfsmönnum félagsins á morgun til að ræða framtíð rekstrarins í kjölfar nýfallins dóms þar sem félagið var dæmt til að greiða konu 7,7 milljónir í skaðabætur vegna slyss sem hún varð fyrir á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli.

Dómurinn féll í héraðsdómi Norðurlands eystra 27. mars sl. en að sögn Snæþórs Arnþórssonar, formanns stjórnar skíðafélagsins, hefur félagið ekki tekið ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Hann segir dóminn hafa komið á óvart þar sem menn hafi talið fólk skíða á eigin ábyrgð.

Stjórnin sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem greint var frá því að skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli yrði lokað frá og með deginum í dag, á meðan skíðafélagið kannaði stöðuna, m.a. hvort rekstrargrundvöllur svæðisins væri brostinn.

Slysið rakið til gáleysis starfsmanna

Umrætt slys átti sér stað 2. febrúar 2013 og bar að með þeim hætti að konan, sem þá var varaformaður skíðafélagsins, renndi sér fram af mishæð sem myndast hafði við troðslu skíðasvæðisins. Lenti hún harkalega á hægri hliðinni og fékk mikið högg á hægri handlegg en höfuð hennar slóst einnig í jörðina og hlaut hún skafsár á andliti.

Í stuttu máli byggði konan á því að leiðin sem hún fór væri „skíðaleið þeirra sem ekki eiga erindi inn í skíðaskálann heldur ætla að skíða beint að bílum sínum sem og þeirra sem ætla að renna sér alla leið niður á Dalvík,“ en skíðafélagið sagði konuna hafa orðið fyrir slysinu utan brautar, þar sem allar troðnar brautir lægju að skíðalyftuenda og að hefðbundnum útgangi.

Samkvæmt gögnum í málinu skertist starfsgeta konunnar um fimmtung eða 20% í kjölfar slyssins og var það metin varanleg örorka.

Dómurinn leit m.a. til framburðar vitnis, menntaðs skíðaþjálfara, sem sagði leiðina sem konan fór oftsinnis notaða til að komast beint að bílastæðunum á skíðasvæðinu. Þá komst hann að þeirri niðurstöðu að öryggisnet sem sett hafði verið upp hefði ekki náð nægilega langt til að loka leiðinni að mishæðinni sem konan fór fram af.

Skíðasvæðið hefur verið opið 75 daga þessa vertíð en aðstæður …
Skíðasvæðið hefur verið opið 75 daga þessa vertíð en aðstæður nú eru ekki upp á sitt besta. Myndin er úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í dóminum segir m.a.:

Verður að telja ljóst að af mishæðinni hafi verið aug­ljós slysahætta og verði að virða starfsmönnum, sem stefnda beri vinnuveitandaábyrgð á, til gáleysis að hafa skapað þá slysahættu. Eru augljós tengsl milli þeirrar hættu sem þannig var sköpuð og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir. Þótt viss áhætta fylgi skíðaiðkun hefur stefnandi ekki með því að ákveða að fara á skíði umrætt sinn, eða með því að fara þá leið sem hún fór, leyst stefnda undan ábyrgð á þeirri hættu sem starfsmenn hans sköpuðu. Verður að telja stefnda skaðabótaskylt vegna tjóns stefnanda á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar. Á hinn bóginn verður jafnan að ætlast til þess af skíðamanni að hann fylgist með því sem fram undan er og sé fær um að bregðast við hindrunum eða torfærum um leið og þær verða sýnilegar. Slysið varð er stefnda hafði sveigt út af hefðbundinni skíðaleið og fór aðra leið og ætlaði að bílastæðum. Gerir það aukna kröfu um aðgát hennar. Með hliðsjón af því þykir verða að ákveða að stefnandi beri tjón sitt að þriðjungi sjálf.

Rekstrargrundvöllurinn í hættu?

Skíðafélagi Dalvíkur var sem fyrr segir gert að greiða konunni 7,7 milljónir króna með vöxtum og 1,5 milljónir í málskostnað í ríkissjóð.

„Við erum bara aðeins að kanna stöðuna og það sem maður veltir kannski svolítið fyrir sér er framhaldið, ef þetta er komið svona í gegn; nú verða slys á skíðasvæðum á hverju ári, að mörgu leyti ekkert frábrugðin þessu, og við þurfum bara aðeins að gefa okkur smá tíma til að fara yfir það hvernig við getum komið í veg fyrir að svona fari,“ segir Snæþór um ákvörðun stjórnar skíðafélagsins að loka skíðasvæðinu í kjölfar dómsins.

Í dag starfa sjö starfsmenn hjá félaginu í fimm stöðugildum; þjálfarar og aðrir starfsmenn skíðasvæðisins. Velta félagsins er í kringum 30 milljónir á ári, að sögn Snæþórs, en tekjur þess eru að stærstum hluta fjárframlag frá Dalvíkurbyggð, æfingagjöld og sala árskorta og dagpassa.

Snæþór segir áhrif dómsins á rekstrargrundvöll svæðisins óljós.

„Það er það sem við erum ekki búin að átta okkur á. Við erum með tryggingar sem taka þetta að mestu leyti en hins vegar þarf kannski að fjárfesta í ýmsum öryggisbúnaði og viðvörunarmerkjum og ýmsu svoleiðis, og við erum náttúrlega ekki stór rekstur; þetta er lítið félag,“ segir hann.

Hann segir þó óvíst að það verði niðurstaðan; félagið eigi eftir að meta það hvort þörf sé á aðgerðum í öryggismálum.

Snæþór segir dóminn hafa komið á óvart.

„Að vissu leyti já. Fyrir okkar leyti fannst okkur þetta mjög skrýtið, þar sem við töldum að allir væru á skíðum á sína eigin ábyrgð,“ segir hann. Spurður að því hvort menn þurfi mögulega að hugsa sinn gang á öðrum skíðasvæðum í kjölfar dómsins svarar hann játandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert