Loka skíðasvæðinu vegna skaðabótadóms

Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli.
Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Stjórn Skíðafélags Dalvíkur hefur ákveðið að loka skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli um óákveðinn tíma í kjölfar dóms þar sem félaginu var gert að greiða skíðakonu 7,7 milljónir auk vaxta og málskostnaðar vegna skíðaóhapps.

Svæðinu verður lokað frá og með morgundeginum en næstu dagar verða notaðir til að meta stöðuna og kanna hvort rekstrargrundvöllur svæðisins sé brostinn, segir í tilkynningu frá félaginu.

Tilkynningin í heild:

„Stjórn Skíðafélags Dalvíkur tók þá ákvörðun á stjórnarfundi í kvöld að loka skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli um óákveðin tíma frá og með þriðjudeginum 4. apríl. Ákvörðunin var tekin í kjölfar dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem félaginu er gert að greiða skíðakonu rúmar 7,7 miljónir, auk vaxta og málskostnaðar, í skaðabætur vegna skíðaóhapps.  Næstu dagar verða notaðir til þess að fara yfir stöðuna og kanna meðal annars hvort rekstrargrundvöllur svæðisins sé brostinn.  Gert er ráð fyrir að í lok vikunnar liggi fyrir hvort svæðið verði opnað aftur í vetur.

Veturinn í vetur hefur verið snjóléttur og nú eru lágmarksaðstæður á skíðasvæðinu en samt sem áður hefur svæðið verið opið í 75 daga á skíðavertíðinni.  Á skíðasvæðinu starfa sjö starfsmenn í fimm stöðugildum. Rúmlega 100 börn og unglingar stunda æfingar hjá félaginu og eru fjórir þjálfarar auk aðstoðarfólks sem sjá um kennslu og þjálfun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert