Opnar 2.500 fm trampólíngarð í haust

Torfi Jóhannsson ætlar að opna trampólíngarð í Suðurhrauni í Garðbæ …
Torfi Jóhannsson ætlar að opna trampólíngarð í Suðurhrauni í Garðbæ síðar á þessu ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í haust er stefnt að því að opna svokallaðan trampólíngarð hér á landi, en á bak við verkefnið stendur einn stærsti trampólínframleiðandi í heimi ásamt Torfa Jóhannssyni sem heillaðist af hugmyndinni fyrir um tveimur árum og hefur síðan unnið að því að koma henni á laggirnar hér á landi.

Búið er að semja við byggingaverktaka sem vinna nú að því að reisa um 2.500 fermetra stálgrindarhús í Suðurhrauni í Garðabæ, en það er hinu megin við Reykjanesbrautina frá IKEA og Costco-versluninni sem verður opnuð innan skamms.

Hafa opnað garða víða um heim

„Ég fór sjálfur í svona garð fyrir tveimur árum síðan og varð heillaður af hugmyndinni. Síðan er ég búinn að vera í tvö ár að sannfæra Rush-menn að koma til Íslands,“ segir Torfi, en Rush-fyrirtækið bæði framleiðir trampólín og rekur fjölda garða víða um heim.

Torfi segir fyrirtækið hafa framleitt trampólín í um 50 ár og rekið trampólíngarða síðan 2012. Nýjasti garðurinn sé í Tromsø í Noregi, en hann opnaði fyrir um viku. Aðrir slíkir garðar séu í Helsinki, Ósló, Suður-Afríku, Argentínu og Bandaríkjunum.

Frá opnun svipaðs trampólínsgarðs og verður hér á landi, í …
Frá opnun svipaðs trampólínsgarðs og verður hér á landi, í Bretlandi árið 2015. Mynd/Rush Iceland

Plataði forstjórann til landsins og hann heillaðist af Íslandi

Áður en hann hafði samband við Rush segist Torfi hafa skoðað fleiri garða í Bandaríkjunum, en hann hafi fljótlega sannfærst um að hann vildi reyna að fá Rush hingað. „Ég eiginlega settist á þá og reyndi að sannfæra þá um að þetta væri eitthvað sem ætti heima hér,“ segir Torfi hlæjandi. Hann hafi svo náð að sannfæra Arch Adams, eiganda Rush og Fun Spot Trampolines, um að millilenda hér á landi á leið sinni frá Bandaríkjunum til Evrópu.

Það sem átti að vera eins dags stopp hafi orðið að fjögurra daga heimsókn og segir Torfi að Adams hafi sannfærst um að hér væri hægt að byggja upp garð eins og á öðrum stöðum á Norðurlöndunum. Þá hafi hann heillast af landinu eftir að hann sá norðurljós í fyrsta skiptið og sagt að hann yrði að sjá þau alla vega tvisvar í viðbót.

Vandamál að finna rétta húsnæðið

„Í framhaldinu fórum við að leita að húsnæði, en það er ekki það auðveldasta þar sem við þurftum yfir tvö þúsund fermetra og 6-8 metra lofthæð,“ segir Torfi. Þeir hafi þó að lokum fundið verktaka sem var að fara í uppbyggingu við Suðurhraun í Garðabæ. Segir hann að samkvæmt björtustu vonum verði hægt að opna staðinn um mánaðamótin september/október, en að enn sem komið sé horfi þeir þó frekar til þess að opnunin verði „seint í haust“.

Torfi er sjálfur ekki með bakgrunn í fimleikum eða öðru sem tengist trampólínum heldur segist hann bara vera ævintýragjarn venjulegur Íslendingur sem hafi séð skemmtilega hugmynd og skellt sér á hana.

Trampólínin verða í ýmsum stærðum og gerðum í garðinum samkvæmt …
Trampólínin verða í ýmsum stærðum og gerðum í garðinum samkvæmt Torfa. Mynd/Rush Iceland

Fyrir börn, vinahópa og vinnustaði

Hann segir að strax og húsið verði klárt sé í raun ekki mjög mikil vinna að koma upp trampólínum og afþreyingarbúnaði. Tilbúnir rammar séu settir upp og svo þurfi auðvitað að huga að öryggisþáttum með því setja svampa og dýnur um allt húsið.

Spurður um hver markhópurinn sé fyrir afþreyingargarð eins og þennan segir Torfi að í grunninn séu það börn og yngra fólk, en einnig vinnustaðir og stórir vinahópar sem vilji skemmta sér. Meðal annars verði aðstaða fyrir skotboltakeppni á trampólínum sem sé skemmtileg afþreying fyrir vinahópa.

Um 100 milljóna stofnkostnaður

Áætlaður stofnkostnaður garðsins er að sögn Torfa um 100 milljónir, en af um 2.500 fermetra gólfplássi í garðinum fara um 1.800 fermetrar undir afþreyingarefni sem eru meðal annars trampólín og svampgryfjur.

Torfi segir að trampólínin verði af mismunandi stærð og gerð. Þannig verði hefðbundin trampólín, svipuð þeim sem fólk sé með úti í garði hjá sér, en líka 25-30 metra langar trampólínbrautir. Þá séu körfuboltaspjöld með trampólínum undir þar sem hægt sé að leika sér að því að troða í körfurnar. Auk þess verða veggtrampólín á nokkrum stöðum sem og stór ólympísk trampólín þar sem hægt verður að gera alls konar æfingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert