Samningur vegna Vesturbugtar

Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Skrifað var undir samning í dag um uppbyggingu í Vesturbugt við gömlu höfnina í Reykjavík.  Byggðar verða 176 íbúðir ásamt verslunar- og þjónustuhúsnæði.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Grímur M. Jónasson, framkvæmdastjóri VSÓ, og Bjarki A. Brynjarsson, framkvæmdastjóri Vesturbugtar, skrifuðu undir samninginn.

Framkvæmdir eiga að hefjast innan 15 mánaða frá undirskrift og skal þeim lokið innan fimm ára, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Dagur áréttaði að í Vesturbugt eins og á öllum nýjum uppbyggingarsvæðum í Reykjavík sé hugað að fjölbreytileika í íbúðastærð og búsetu, en hluti íbúða verði leiguíbúðir.

Reykjavíkurborg kaupir 74 íbúðir og framselur til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Það geta verið félög stúdenta, eldri borgara, Félagsbústaðir, byggingarfélög öryrkja eða byggingarsamvinnufélög. 

Vinningstillaga íbúða- og athafnasvæðis

Til grundvallar samningnum liggja niðurstöður í samkeppnisútboði sem Reykjavíkurborg stóð fyrir. Að vinningstillögunni stóðu VSÓ Ráðgjafar ehf., BAB Capital ehf., PKdM Arkitektar ehf., Basalt arkitektar ehf., Trípólí arkitektar sf. og Krads arkitektar ehf.

Sérstakt félag, Vesturbugt ehf., hefur verið  stofnað og mun það annast uppbyggingu svæðisins í samstarfi við Reykjavíkurborg.  Bjarki A. Brynjarsson, framkvæmdastjóri Vesturbugtar, segir það vera mjög ánægjulegt að koma að uppbyggingunni í Vesturbugt. „Við höfum fengið með okkur frábært teymi arkitekta sem hafa lagt mikinn metnað í að þróa hugmyndafræði svæðisins þannig að það verði aðdráttarafl fyrir íbúa og gesti. Í bland við afar fallega íbúðarbyggð verða veitingastaðir og verslanir á jarðhæðum sem opnast út á skjólsæl torg. Slippurinn, hafnarsvæðið og Grandinn eru nú þegar orðin hringiða sérverslana og veitingastaða og maður þarf ekki að staldra lengi við til þess að sjá að nú þegar er iðandi mannlíf á svæðinu,“ segir Bjarki í tilkynningunni.

Grímur M. Jónasson, framkvæmdastjóri VSÓ, segir að Vesturbugin sé mjög sérstakt svæði á einstökum stað við höfnina og slippinn. „Það er frábært tækifæri fyrir VSÓ að koma að þróun og undirbúningi verkefnisins frá upphafi, annast síðan verkfræðilega hönnun byggðarinnar í samstarfi við öflugt teymi arkitekta. Hér nýtist áratuga reynsla okkar af hönnun og mannvirkjagerð og við leggjum áherslu á að gæði bygginganna verði í góðum takti við gæði umhverfisins sem er auðvitað einstakt í borginni og þótt víðar væri leitað,“ segir Grímur í tilkynningunni.

Skapandi lausnir og tengingar við hafnarsvæðið

Vinningstillagan þykir sýna sannfærandi heildaryfirbragð sem og fjölbreytni í útfærslu byggðarinnar með því að hvert hús hefur sérkenni í efnisnotkun og hönnun að dómi matsnefndar. „Í tillögunni koma fram skapandi lausnir í mótun bygginganna og hugmyndir um bogadregin horn einstakra húsa með vísun í hafnarsvæðið er sannfærandi,“ segir í greinargerð viðræðu- og matsnefndar Reykjavíkurborgar. Þá segir að torgsvæði séu vinaleg og hlýleg. Flæði inn á og um svæðið sé gott og opið á aðalleiðum og aðgengi að og frá bílakjallara um sérstök stigahús að sameiginlegum útisvæðum byggðarinnar séu áhugaverð.

Gert er ráð fyrir að bílakjallari geti verið fyrir allt að 190 bíla og verður hann opinn almenningi í rekstri hjá Bílastæðasjóði. Tillagan gerir ráð fyrir því að bílageymsla verði máluð í björtum og aðgreinanlegum litum til að auka öryggistilfinningu vegfarenda, auk þess sem þar mun njóta dagsbirtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert