264 keppendur frá 40 löndum

S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, leikur fyrsta leiknum í skák …
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, leikur fyrsta leiknum í skák Gauta Páls Jónssonar og stigahæsta keppandans, Anish Giri. Ljósmynd/Maria Emelianova

GAMMA Reykjavíkurskákmótið hófst í dag í Hörpu þegar fyrsta umferð mótsins fór af stað. Alls eru mættir til leiks 264 keppendur frá 40 löndum sem er nálægt metþátttöku. Meðal keppenda eru 33 stórmeistarar og stigahæstur keppenda er ofurstórmeistarinn Anish Giri (Hollandi) sem státar af 2.771 skákstigi.

Giri hefur verið fastagestur á elítuskákmótum í langan tíma þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára og er talinn í hópi líklegra kandídata til að hrifsa krúnuna af Magnus Carlsen, að því er kemur fram í tilkynningu.

Baadur Jobava frá Georgíu við taflborðið í dag.
Baadur Jobava frá Georgíu við taflborðið í dag. Ljósmynd/Maria Emelianova

Styrkleikamunur er venjulega mikill í fyrstu umferðum á opnum skákmótum og lítið var um óvænt úrslit. Bræðurnir Björn og Bragi Þorfinnssynir urðu að sættast á skiptan hlut gegn mun stigalægri keppendum. Bragi gerði jafntefli gegn nýbökuðum skákmeistara Norðlendinga, Haraldi Haraldssyni, en Björn Þorfinnsson slapp með skrekkinn gegn Nansý Davíðsdóttur.

Tvöföld umferð verður tefld á morgun, fimmtudag, og hefst sú fyrri klukkan níu í fyrramálið en sú seinni klukkan 17. Mótshald mun standa yfir í Hörpu næstu daga en mótinu lýkur 27. apríl. Áhorfendur eru velkomnir á mótsstað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert