Olsen í gæsluvarðhald til 23. maí

Frá Héraðsdómi Reykjaness.
Frá Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Thom­as Møller Ol­sen, sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í janúar síðastliðnum, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 23. maí. Svo hljómar úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp rétt í þessu.

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, sagði málið gegn ákærða hafa verið rekið með hæfilegum hraða og að ekkert benti til þess að skilyrði gæsluvarðhalds væru ekki ennþá til staðar. 

Olsen hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 17. janúar en hefur verið í varðhaldi á grundvelli almannahagsmuna frá 2. mars.

Verjandi Olsen mótmælti fyrir hans hönd frekara varðhaldi, en gerði til kröfu þá vara að því væri markaður skemmri tími. Af gögnum málsins væri þá að ráða að bersýnilega útilokað væri að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lýst sé í ákæru.

Úrskurðaði héraðsdómur á þá leið að Olsen sætti gæsluvarðhaldi svo lengi sem mál hans væri til rannsóknar, en þó ekki lengur en til 23. maí næstkomandi, klukkan 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert