Breikkun Miklubrautar að hefjast

Búið er taka upp gamlar steinhellur af gangstéttinni við Klambratúnið …
Búið er taka upp gamlar steinhellur af gangstéttinni við Klambratúnið og setja í stafla. Í næstu viku hefjast miklar framkvæmdir á vegkaflanum milli Rauðarárstígs og Miklubrautar. mbl.is/Golli

Á mánudag hefjast framkvæmdir við breikkun Miklubrautar, á kafla milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs. Einni akrein til vesturs, í átt að miðbænum, verður lokað í fyrstu. Búast má við umferðartöfum, aðallega á morgnana og seinnipartinn. Síðar í framkvæmdaferlinu þarf að loka fleiri akreinum í einu. Um tíma í sumar verða þrengingar í báðar áttir, aðeins ein akrein í hvora átt opin fyrir bílaumferðinni.

Raskið helgast af því að nú er verið að hefjast handa við gerð strætóreinar á Miklubraut til austurs á veghlutanum á milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs. Einnig á að leggja göngu- og hjólastíga meðfram Klambratúni.

Reykjahlíð verður lokað við Miklubraut og gert verður hellulagt torg (upphækkuð hellulögn) á gatnamót Reykjahlíðar og húsagötu við Miklubraut. Tilgangur þessa torgs er að hægja á umferð og auka öryggi gangandi vegfarenda. Þá verða biðstöðvar strætó endurgerðar og götulýsing verður yfirfarin og endurbætt eftir þörfum. Hljóðveggir verða settir meðfram götunni. Að norðanverðu verða þeir úr grjótkörfum en að sunnanverðu verður steyptur veggur.

Lagðir verða nýir göngu- og hjólreiðastígar meðfram Miklubraut við Klambratún. …
Lagðir verða nýir göngu- og hjólreiðastígar meðfram Miklubraut við Klambratún. Lágreistur hljóðveggur mun dempa hávaða frá umferðinni. Tölvuteikning/Reykjavíkurborg

Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að gert sé ráð fyrir að framkvæmdum sem tefja umferð verði lokið í ágúst, en tímabundið verður akreinum fækkað í eina í hvora átt. „Reynt verður eftir fremsta megni að hafa þann tíma stuttan,“ segir Jón í samtali við mbl.is. „Fyrst verður þrengt að umferð á þeirri akrein sem liggur í vesturátt. „Byrjað verður á mánudag og eftir að þungi morgunumferðar verður liðinn hjá verður einni akrein til vesturs lokað, þ.e. í átt að miðbænum. Gera má ráð fyrir að áhrifa þessarar þrengingar gæti einkum á morgnana og þá fyrst á þriðjudag.“

Ekkert verður gengið á Klambratúnið í þessum framkvæmdum. Ekkert rask mun fara fram innan trjálínunnar sem aðskilur gangstígana í dag frá almenningsgarðinum. Til að bæta við strætóreininni er tekið svæði af umferðareyjunni á miðri Miklubrautinni sem og af svæði meðfram húsagötunni við brautina að sunnanverðu.

Hljóðveggir verða settir upp við Miklubrautina á vegkaflanum milli Rauðarárstígs …
Hljóðveggir verða settir upp við Miklubrautina á vegkaflanum milli Rauðarárstígs og Lönguhlíðar. Við Klambratún (t.h.) verður veggurinn um 1 metri að hæð og gróður settur að honum til að gera vistlegri. Steyptur veggur verður við húsagötu að sunnanverðu. Teikning/Reykjavíkurborg

 Meðfram Miklubraut verða gerðar hljóðvarnir úr grjótkörfum að norðanverðu við Klambratún og steyptum vegg að sunnanverðu. Gróður verður settur í miðeyju brautarinnar og við stíga meðfram Klambratúni. Að sögn Jóns Halldórs er ekki um stórar hljóðmanir að ræða. Tilgangur þeirra er að dempa hljóð frá umferðinni fyrir þá sem búa við brautina og þá sem eru þar á gangi eða á hjóli. Veggurinn við Klambratún verður aðeins um 1 metri á hæð. Með honum verður fólk sem notar hjóla- og göngustígana „skermað“ frá umferðinni og gróður settur að að honum til að gera hann vistlegri.

Strætóreinin verður eins og fyrr segir til austurs, þ.e. frá miðborginni. Hún mun ekki ná yfir gatnamót Lönguhlíðar/Miklubrautar. 

Á þessari mynd má sjá strætóreinina í rauðum lit. Fyrir …
Á þessari mynd má sjá strætóreinina í rauðum lit. Fyrir miðri mynd má sjá hellulagða upphækkun við gatnamót Reykjahlíðar og húsagötu við Miklubraut. Tilgangurinn er að hægja á umferð og auka öryggi vegfarenda. Teikning/Reykjavíkurborg

Meðan breytingar verða gerðar á biðstöðvum strætó við Klambratún verða bráðabirgðastöðvar settar við gatnamót Lönguhlíðar.

Verkið er unnið í samvinnu Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og Veitna. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er um 350 milljónir króna. Hlutur Reykjavíkurborgar er um 170 milljónir. 

Framkvæmdirnar eru í samræmi við setta stefnu í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010 - 2030 um að auka vægi almenningssamgangna og auðvelda fólki að komast leiðar sinnar gangandi og hjólandi um borgina, en aðalskipulagið leggur mikla áherslu á fjölbreytni í samgöngumátum.

Áætlað er að verkinu í heild verði lokið í október.

Hér má sjá frekari teikningar af framkvæmdunum. Hér má lesa frekari upplýsingar um alla framkvæmdina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert