Ýttu úr vör áætlun í loftslagsmálum

Frá fundinum í Ráðherrabústaðnum í morgun.
Frá fundinum í Ráðherrabústaðnum í morgun. mbl.is/Eggert

Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skrifuðu í dag undir samstarfsyfirlýsingu um gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem liggja skal fyrir í lok ársins. 

Markmið áætlunarinnar er að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030 með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti. 

Sérstök verkefnastjórn og sex faghópar vinna áætlunina. Settur verður upp samráðsvettvangur þar sem fulltrúum haghafa og stjórnarandstöðu verður boðið að taka sæti. 

Áhersla verður lögð á samráð við haghafa og að sjónarmið og tillögur komi frá aðilum utan stjórnkerfisins. 

„Ég tel það mjög mikilvægt að þetta verkefni sé á Íslandi unnið þvert á þau svið sem geta lagt hönd á plóginn. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé ekki unnið í einu ráðuneyti,“ sagði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Saman munum við geta breytt hlutunum,“ sagði hún og bætti við að Ísland hafi verið að losa of mikið af gróðurhúsalofttegundum.

„Það er mikilvægt að við fáum atvinnulífið og almenning til þess að vinna þetta með okkur, og stjórnarrandstöðuna líka. Loftslagsmálin eru ekki eitthvað sem við eigum að vera að kýtast um. Við verðum að sameinast í þetta stóra verkefni."

Frá undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar.
Frá undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipta máli árhundruð fram í tímann

Hún sagði mikilvægt að hugsa loftslagsmálin langt fram í tímann. „Við erum að fara í aðgerðir sem skipta máli árhundruð fram í tímann. Ef við ætlum að stefna að því að Ísland verði lágkolvetninshagkerfi munu þær aðgerðir sem við erum að leggja af stað með hafa áhrif langt fram í tímann . Við munum sjá árangur þeirra mest eftir kannski 50 ár en það er brýnt að fara af stað ekki seinna en í dag.“

Brekka fyrir Íslendinga að ná markmiðum

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði að Íslendingar standi ágætlega í samanburði við aðrar þjóðir hvað loftslagsmál snertir.

Hann sagði að vel hafi tekist upp á sviði nýsköpunarrannsókna og að heimilin í landinu styðjist fyrst og fremst við sjálfbæra orkugjafa þegar kemur að rafmagni og húshitun.

Að sögn Bjarna eru sóknarfæri ekki síst á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs og sagði hann augljóst að aðgerðirnar sem verið er að fara í muni skila árangri.

Hann sagði að það gæti verið talsvert brekka fyrir Íslendinga að ná þeim markmiðum sem um er rætt. „Við ætlum að fara bjartsýn til þessa verkefnis.“

Í samstarfsyfirlýsingunni segir m.a.: „Til að Ísland nái að standast metnaðarfull markmið Parísarsamningsins er ljóst að samfélagið allt þarf að taka fullan þátt. Það þarf að tryggja langtímasýn og -árangur í minni auðlindasóun og uppbyggingu og þróun lágkolefnishagkerfis. Það kallar á samstillt átak innan stjórnkerfisins og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, félagsamtaka og síðast en ekki síst almennings. Því ætlar ríkisstjórnin að hrinda af stað gerð nýrrar aðgerðaráætlunar til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu. Áætlunin á að miða að því að Íslandi standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum til 2030 og varða veginn að róttækri minnkun losunar til lengri tíma í samræmi við leiðsögn fræðasamfélagsins um hvernig er hægt að ná markmiðum um að halda hlýnun andrúmsloftsins vel innan við 2°C."

Einnig kemur fram í samstarfyfirlýsingunni að vegna stórfelldrar landeyðingar í gegnum aldirnar og framræslu votlendis síðustu áratugin hafi Ísland mikla möguleika á að draga úr losun frá landi og binda kolefni á ný í jarðvegi og gróðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert