Álagið mun aukast á næstunni

Mörg símtöl hafa borist Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna nýs greiðsluþátttökukerfis.
Mörg símtöl hafa borist Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna nýs greiðsluþátttökukerfis. mbl.is/Árni Sæberg

 „Við höfum verið að fá þó nokkuð af símtölum. Við skynjum að fólk er áhyggjufullt og svo er líka ákveðinn misskilningur á ferð. Aldraðir eru til dæmis að hringja og telja að þeir þurfi tilvísun. En tilvísanakerfið snýr eingöngu að börnum,“ segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, um það hvernig fyrstu dagarnir hafa gengið með nýtt greiðsluþátttöku- og tilvísanakerfi sjúklinga sem tók gildi 1. maí.

Upphaflega átti að innleiða nýtt greiðsluþátttökukerfi 1. febrúar, en heilbrigðisráðherra ákvað að fresta innleiðingu kerfisins svo meiri tími fengist til undirbúnings. Ýmsir tæknilegir örðugleikar komu upp í ferlinu og meðal annars þurfti að innleiða nýtt tölvukerfi hjá Sjúkratryggingum Íslands. Til þess að hægt sé að reikna út þann afslátt sem sjúklingar eiga rétt á hverju sinni þurfa upplýsingar að berast daglega til Sjúkratrygginga frá allt að 1000 læknum, heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og öðrum aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisráðherra frestaði innleiðingu kerfisins svo meiri tími gæfist í undirbúning.
Heilbrigðisráðherra frestaði innleiðingu kerfisins svo meiri tími gæfist í undirbúning. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kerfið ekki alveg tilbúið

„Það má segja að þetta kerfi hafi ekki alveg verið tilbúið þegar það var tekið í notkun. Hvað varðar þessar rafrænu færslur. En það er vonandi verið að vinna í því. Kerfið á allt að vera rafrænt að því leytinu að þegar sjúklingur kemur til okkar, eða annað, þá kemur strax upp hvernig hann stendur gagnvart greiðsluþátttökunni. En það er ekki alveg orðið rafrænt að fullu,“ útskýrir Svanhvít. Í samtali við Rúv í síðustu viku sagði Steingrímur Ari Arason að slíkir hnökrar gætu komið upp. Hann sagði að í versta falli yrðu einstaklingar að leggja meira út en ella, en um leið og upplýsingarnar skiluðu sér myndu Sjúkratryggingar endurgreiða mismuninn.

Að sögn Svanhvítar hafa þó engin stórkostleg vandamál komið upp innanhúss hjá þeim, en hún gerir ráð fyrir að álagið eigi eftir að aukast til muna á næstunni. „Sér í lagi þegar fólk fer að átta sig á því hvað þetta þýðir í greiðslum fyrir hvern og einn og fólk þarf að leita eftir þessari þjónustu.“ Svanhvít vísar þar meðal annars til aukins kostnaðar við heimsóknir barna á aldrinum 2 til 18 ára til sérfræðilækna, hafi þau ekki tilvísun frá heimilislækni. Aukning getur verið á bilinu 125 til 350 prósent. Með tilvísun er þjónustan hins vegar gjaldfrjáls.

Stendur varla undir markmiðinu

Sjúkratryggingar Íslands fengu 30 milljóna króna fjárveitingu til að standa undir kostnaði við nýtt greiðsluþátttökukerfi, en kerfið felur í sér grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi á greiðslum sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu. Er þetta jafnframt liður í því að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. mbl.is

Í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur hins vegar fram að Heilsugæslan standi ekki að öllu leyti undir því markmiði að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Meginástæðurnar eru vankantar á skipulagi heilbrigðiskerfisins, takmarkaðar fjárveitingar til Heilsugæslunnar og skortur á aðhaldi með heilsugæslustöðvunum.

Þá hefur ASÍ lýst yfir áhyggjum sínum vegna aukins kostnaðar almennings við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Fyrir þá sjúklinga sem þurfa mikla þjónustu reglulega mun kostnaðurinn lækka töluvert með nýja kerfinu, en fyrir flesta aðra kemur kostnaðurinn til með að hækka. Almennt hámarksgjald á mánuði er nú 24.600 en aldraðir, öryrkjar og börn greiða að hámarki 16.400 krónur á mánuði. Hámarksgreiðsla almenns notanda getur þó aðeins numið 69.700 krónum á á 12 mánaða tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert