Hefur lokið þegnskyldunni

Jakob Frímann Magnússon.
Jakob Frímann Magnússon. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég ákvað að ljúka mínu tímabili þar í gær og gefa ekki kost á mér aftur. Ég er búinn að sitja þarna í liðlega tíu ár og búinn að klára það sem ég hafði sett mér að gera,“ segir tónlistarmaðurinn landskunni Jakob Frímann Magnússon í samtali við mbl.is en hann hefur látið af störfum sem formaður Félags tónskálda og textahöfunda.

Bragi Valdimar Skúlason, sem verið hefur varaformaður félagsins, hefur tekið við keflinu. „Ég leit á þetta sem ákveðna þegnskyldu mína á sínum tíma að gefa mig í þetta og reyna að breyta því sem breyta þurfti á þessum starfsvettvangi. Ég get sagt með góðri samvisku að það hefur breyst til betri vegar þökk sé öllu því góða fólki sem hefur starfað með okkur að því undangenginn áratug,“ segir Jakob. Samkvæmt heimildum mbl.is fékk Jakob gefins sérstakt stuðmen frá FTT í tilefni af tímamótunum, en hann er sem kunnugt er einn Stuðmanna.

Verði ekki rifin úr íslenskri mold

„Við Bragi Valdimar erum nýkomnir heim frá Los Angeles af glæsilegustu tónlistarhátíð undir íslensku flaggi sem haldin hefur verið utan landsteinanna. Til hátíðarinnar var stofnað að frumkvæði LA Philharmonic og í samstarfi við Útón og fleiri aðila birtist þar afar glæst sneiðmynd af íslenskri tónlist með atfylgi Sigur Rósar, Múm, Ólafar Arnalds, Skúla Sverrissonar, Amiinu, Bjarkar og svo mætti lengi telja. Staða íslenskrar tónlistar í hugum útlendinga virðist nú stærri og litríkari en nokkru sinni fyrr og í því felast í senn áskoranir og tækifæri. Þetta hefur nefnilega gjörbreyst frá níunda áratugnum þegar uppruni íslenskrar tónlistar virtist fyrirstaða fremur en hitt.“

Jakob Frímann segir ákveðin vatnaskil blasa við núna í þessum efnum. „Nú ber okkur að fara að skilgreina okkur upp á nýtt miðað við þá stöðu sem við njótum á heimsvísu. Við höfum sem jaðarþjóð náð mestum árangri í jaðartónlist og þurfum nú að huga að því hvort hér eigi að verða til alvöru tónlistariðnaður sem hlúð verði að sem slíkum. Þegar búið er að vökva grasrótina og sprotana á kostnað tónlistarlífsins og skattgreiðenda, og þeir tekið að blómgast, hefur það verið svo oftar en ekki að slík stjörnublóm hafa verið nær tafarlaust rifin úr íslenskri moldu og plantað í enskan eða amerískan svörð og allt hagkerfi viðkomandi listamanna því hörfað úr landi í stað þess að skila hingað ábatanum. Því telja margir tímabært að við byggjum hér upp stoðkerfi og iðnað sem fær að blómgast innan íslenskrar lögsögu. Það hlýtur að minnsta kosti að vera langtímamarkmiðið.“

Kveður sáttur og þakklátur

Jakob Frímann er þó ekki að hverfa frá FTT að öllu leyti, en hann verður næsta árið í stjórn félagsins og nýjum formanni innan handar. „Formenn FTT gegnum tíðina hafa smám saman lært að gera sér grein fyrir því að þetta er töluverður pakki, þótt starfið sé í raun sem næst ólaunað félagsstarf. Formaður FTT er sjálfkrafa formaður STEFs á tveggja ára fresti, formaður Samtóns, Útóns og Iceland Airwaves og með aðild að ýmsum öðrum stjórnum og ráðum sem heyra undir þessar skyldur. Þannig að ég hef nú hvatt eftirmanninn til þess að segja bæði upp hjá Brandenburg og Baggalúti til þess að geta einbeitt sér að þegnskyldunni næstu tíu árin,“ segir Jakob kíminn.

Tímarnir fram undan eru bjartir að mati Jakobs Frímanns þegar íslensk tónlist er annars vegar. „Ríkið hefur brugðist afar vel við þeim ábendingum og tilmælum sem við höfum lagt fram undanfarin misseri og ár og það er búið að leiðrétta sitthvað innan dyra hjá okkur líka og Reykjavíkurborg hefur núna lagt umtalsverða vinnu í það að geta með sanni skilgreint sig og markaðssett sig sem „Tónlistarborgin Reykjavík”. Það er mikið fagnaðarefni sem á eftir að kynna betur á næstu vikum en ég ætla ekki að tjá mig meira um það. Borgarstjórinn í Reykjavík á heiðurinn af því að hafa lagt í þá vegferð í samstarfi við aðila í tónlistargeiranum og lykilstarfsmenn í borgarkerfinu. Þá getum við sagt að bæði ríki og borg séu á réttri vegferð og gangandi í takt við hið vaxandi og hrynfasta íslenska tónlistarlíf. Þannig að ég kveð mjög sáttur og þakklátur fyrir það sem áunnist hefur og get hér eftir varið frítíma mínum með eilítið öðrum hætti. Kannski samið eilítið fleiri lög en ella.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert