13 milljónir fyrir aðgerðir erlendis

Sjúkratryggingar greiða ekki fyrir liðskiptaaðgerðir í Ármúlanum.
Sjúkratryggingar greiða ekki fyrir liðskiptaaðgerðir í Ármúlanum. mbl.is/Árni Sæberg

Átaksverkefni Landspítalans um að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum hefur skilað miklum árangri en samkvæmt könnun Embættis landlæknis frá júní 2016 biðu 80% af sjúklingum lengur en tvö ár eftir mjaðmarskiptum eða hnjáskiptum.

Átaksverkefnið hófst í mars í fyrra og áætlað er að það standi í tvö ár í viðbót. Sjúklingar bíða nú í rúma 6 mánuði eftir liðskiptaaðgerð, ef bið er lengur en 90 dagar er hægt að fara í aðgerðina erlendis á grundvelli EES-tilskipunar og endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands kostnaðinn.

Fimm manns fóru í vikunni í liðskiptaaðgerðir í Svíþjóð en hafnað var að greiða fyrir aðgerðirnar á Klíníkinni í Ármúla. Sjö aðrir fóru í slíkar aðgerðir í Evrópu á síðustu tveimur árum en endurgreiddar voru 13 milljónir króna úr Sjúkratryggingum vegna þeirra.

Mikilvægt hvenær biðtími hefst

Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarskurðlæknir á Klíníkinni, segir raunverulegan biðtíma eftir aðgerð vera lengri en þann sem hefur verið í fjölmiðlaumræðu síðustu daga.

Hjálmar vill meina að áætlaður biðtími eftir liðskiptaaðgerðum sé annar, enda sé biðtíminn reiknaður fram í tímann. Hann bendir á verið sé að „extrapolera“ en þá er dregin ályktun um að óþekkt stærð haldist óbreytt, s.s. fjöldi aðgerða og sjúklinga, en Íslendingar muni eldast mjög hratt á næstu árum, en átaksverkefnið er tímabundið.

„Ef þú ert með 1.200 manns á biðlista og ég geri X margar aðgerðir á ári þá er biðtíminn Y, það er aldrei reiknað hvað er raunverulegur biðtími hjá einstaklingum,“ segir Hjálmar.

„Veruleikinn er annar þegar ég hitti sjúklinga á stofunni hjá mér en sá sem birtist í fjölmiðlum. Biðtími er sagður 6-8 mánuðir en það þarf að reikna allt ferlið. Frá greiningu hjá heimilislækni yfir í tilvísun til sérfræðings og þá oftast til Landspítalans. Þar er oft löng bið eftir viðtali hjá bæklunarlækni. Síðan er tekin ákvörðun um aðgerðina. Þannig það er oft löng bið áður og síðan bið eftir aðgerðinni.“

Lýðfræðin með í reikningum

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að lýðfræðilegir þættir séu ávallt reiknaðir með í biðtímum. „Þegar Landspítali gerir áætlanir sínar eru lýðfræðilegir þættir, þ.e. fjölgun og aldurssamsetning, ávallt reiknuð inn í. Því er gert ráð fyrir eðlilegri fjölgun þessara aðgerða eins og annarra meðferða sem á spítalanum eru veittar.“ Hann segir markmiðið vera að þjónustan sé veitt innan þess biðtíma sem Embætti landlæknis hefur skilgreint og með átaksverkefninu sé spítalinn kominn langt á veg með það. Páll bætir við að þegar átaksverkefninu lýkur sé það ákvörðun stjórnvalda, hvort árangrinum verði viðhaldið eður ei.

Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir í samtali við Morgunblaðið að nefndin muni kalla eftir upplýsingum um biðtíma aðgerða og fara yfir stöðu mála.

Fleiri sótt um aðgerðir erlendis

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að mun fleiri hafa fengið leyfi til að fara í aðgerðir erlendis vegna óhóflegs biðtíma hérlendis en þeir sem hafa raunverulega farið. „Það eru mun fleiri en þessir sjö og þessir fimm sem fóru í vikunni sem hafa fengið réttinn staðfestan en ekki nýtt sér hann til að fara út. Þeir aðilar hafa ákveðið að bíða eftir aðgerðum hér heima.“

Hann segir að margar ástæður gætu verið að baki en auðvitað sé það erfið ákvörðun að fara utan í aðgerð og líklegt að fólk vilji frekar vera á Íslandi. „Það er auðvitað meira en að segja það að fara svona út. Fólk þarf að hafa bakland frá lækninum sínum heima svo þetta sé raunhæft, fæstir treysta sér til þess að vera einir í samskiptum við erlendan lækni og erlenda heilbrigðisstofnun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert