Framsókn mun aldrei styðja ríkisstjórnina

Lilja og Sigurður Ingi áður en fundurinn hófst.
Lilja og Sigurður Ingi áður en fundurinn hófst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin er mjög völt í sessi að mati varaformanns Framsóknarflokksins því hún er „mynduð í kringum stóla“.

„Ríkisstjórn sem er ekki mynduð í kringum hugmyndir eða framtíðarsýn mun aldrei áorka neinu,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, á vorfundi miðstjórnar flokksins í dag. Þá sagði Lilja að ríkisstjórnin muni ekki endast og að það væri alveg ljóst í hennar huga að Framsókn muni ekki styðja hana undir neinum kringumstæðum. „Fyrr verður boðað til kosninga,“ sagði Lilja og bætti við að Framsókn þurfi að vera undirbúin fyrir það.

Ná þarf sáttum í flokknum

Lagði hún áherslu á að ná þurfi sáttum í flokknum enda væru flokksmenn stoltir af flokknum og sögu hans. „Verkefnið er að koma þessari ríkistjórn frá og sameinast í því svo þjóðin geti einbeitt sér að alvörustjórnmálum og þurfi ekki að horfa upp á hvert klúðrið á fætur öðru,“ sagði Lilja.

Sagði hún að erfiðir tímar hefðu verið hjá Framsókn í aðdraganda og kjölfar flokksþingsins í haust. „Talað er um að flokkurinn sé tvíklofinn og jafnframt þríklofinn,“ sagði Lilja og bætti við að þjóðin mætti ekki við því að missa Framsókn.

Hvatti hún flokksmenn til að horfa fram á veginn og ekki deila innbyrðis heldur byggja flokkinn upp málefnalega og veita ríkisstjórninni aðhald.

Þá þakkaði hún fyrir traustið sem henni hefur verið veitt og sagðist ætla að gera allt sem í hennar valdi stendur til að leggja sitt af mörkum, ná sáttum og vinna fyrir flokkinn. „Ég hvet ykkur öll að halda áfram að horfa fram á veginn og standa saman,“ sagði hún að lokum og hlaut dynjandi lófatak og stóðu fundargestir upp fyrir varaformanninum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræðir við Lilju Alfreðsdóttur skömmu áður en …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræðir við Lilju Alfreðsdóttur skömmu áður en fundurinn hófst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn útibú frá Sjálfstæðisflokknum og Björt framtíð útibú frá Viðreisn

Ríkisstjórnin var einnig gagnrýnd í ræðu formanns flokksins, Sigurðar Inga Jóhannssonar, fyrr á fundinum. Sagði hann fulla þörf á rödd Framsóknarflokksins og hugmyndum hans til að bæta hag þjóðarinnar. „Sérstaklega nú þegar svo virðist sem einn flokkur, umfram aðra, stjórni landinu upp á sitt eindæmi,“ sagði Sigurður og bætti við að þegar gengið er til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn þurfi að hafa afl til að standa í lappirnar. „Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn,“ sagði Sigurður.

Benti hann á að í ellefu manna ríkisstjórn sitji sex Sjálfstæðismenn og að ekki fyrir svo löngu síðan voru 9 af þeim sem eru ráðherrar nú í Sjálfstæðisflokknum. „Ríkisstjórnin sem nú situr hefur því væna hægri slagsíðu,“ sagði Sigurður.

Hann gagnrýndi fjármálaráðherra fyrir að „gefa eftir í baráttunni við eigendur aflandskróna“ og sagði að mögulega hafi pólitíska þrekið verið „þrotið, enda óvanur maður í fjármálaráðuneytinu sem taldi sig vera að leysa fjármagnshöftin upp á eigin spýtur.

En bara svo því sé haldið til haga, þá fann hann ekki það fræ sem til þurfti til að leysa fjármagnshöftin, hann sáði því ekki, sá ekki um þreskingu, mölun eða bakstur. Honum til upplýsingar var sú vinna öll unnin á síðasta kjörtímabili undir forystu Framsóknarflokksins. Núverandi fjármálaráðherra vildi hins vegar ólmur gæða sér á afrakstri af annarra manna vinnu,“ sagði Sigurður.

Vilja að breytingar gerist bak við tjöldin

Sagði hann jafnframt einkavæðingu vera að aukast á vakt ríkisstjórnarinnar, m.a. í heilbrigðiskerfinu.

„Reyndar virðist heilbrigðisráðherra ekki hafa hugmynd um að það sé að gerast í heilbrigðiskerfinu, né hvernig hún er tilkomin. Gekk ráðherra svo langt á dögunum að hann sagði í viðtali að það væri ekki endilega plottað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Sigurður.

„Sem sagt; hann aftekur það ekki með öllu. Það er ekki þægileg tilhugsun að hafa ráðherra sem ekki er klár á því hvenær verið er að plotta og hvenær ekki.“

Þá sakaði hann menntamálaráðherra um að einkavæða framhaldsskóla án umræðu á Alþingi.„Þegar upp komst harmaði hann ótímabæra umræðu um breytingarnar fyrirhuguðu. Það voru hans viðbrögð; sem sagt að einhver skyldi vilja ræða hvort færa skyldi Ármúlaskóla inn í einkarekstur. Það voru alveg ótrúlega furðuleg viðbrögð. Hvenær átti að ræða og hverjir máttu ræða breytinguna?“

Sagði hann það virðast þannig að ríkisstjórnin vilji að breytingar gerist bak við tjöldin. „Og allt gerist þetta á vakt ríkisstjórnar sem boðað hefur ný gegnsærri og vandaðri vinnubrögð,“ sagði Sigurður.

Fundurinn stendur nú yfir á Hótel Natura.
Fundurinn stendur nú yfir á Hótel Natura. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert