Huldufélag tekið til gjaldþrotaskipta

Tollstjóri gerir kröfu um að Fjárfar ehf. verði tekið til …
Tollstjóri gerir kröfu um að Fjárfar ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta. mbl.is/Hjörtur

Tollstjóri hefur krafist þess að huldufélagið Fjárfar ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta, en krafan verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. júní. Fjárfar skilaði síðast ársreikningi árið 2012 og átti þá um 25 milljónir króna. Starfsemi félagsins virðist hins vegar hafa verið lítil sem engin á þeim tíma.

Í gegnum tíðina hefur enginn viljað kannast við að eiga félagið eða hafa stjórnað því. Skráðir stjórnarmenn sóru félagið af sér og sögðust ekkert hafa skipt sér af því. Það var þó ítrekað tengt við Baug, en Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, var skráður stjórnarmaður í félaginu.

Félagið stóð á árunum 1999 til 2003 í margvíslegum fjárfestingum og tók meðal annars þátt í harðvítugri baráttu um völd í Straumi og Íslandsbanka.

Fékk hundruð milljóna lánaðar

Árið 2005 var saga Fjárfars rifjuð upp í Morgunblaðinu. Þar sagði meðal annars: „Samkvæmt upplýsingum frá Hlutafélagaskrá var Fjárfar ehf. stofnað 11. nóvember 1998. Hlutafé var tvær milljónir króna og skiptist til helminga á milli stofnendanna tveggja, Sigfúsar R. Sigfússonar og Sævars Jónssonar. Sigfús var eini stjórnarmaður félagsins, og þar með jafnframt stjórnarformaður, og Sævar sat í varastjórn. Samkvæmt samþykktum Fjárfars skyldi stjórnin, uns annað yrði ákveðið, skipuð einum manni og öðrum til vara.“

Fjárfar ehf. hefur ítrekað verið tengt við Baug í gegnum …
Fjárfar ehf. hefur ítrekað verið tengt við Baug í gegnum tíðina þótt forsvarsmenn fyrirtækisins hafði svarið það af sér. Kristinn Ingvarsson

Félagið kom ítrekað við sögu í Baugsmálinu svokallaða, og snerist einn af stóru ákæruliðum málsins í raun um það. Sækjandi í málinu taldi Jóni Ásgeir Jóhannesson hafa verið raunverulegan eiganda Fjárfars ehf. og hafa stjórnað því. Félagið á að hafa fengið hundruð milljóna króna að láni frá Baugi hf., meðal annars til að kaupa verslunarkeðjuna 10-11. En félagið hagnaðist svo um hundruð milljóna þegar það seldi sömu keðju til almenningshlutafélagsins Baugs hf.

Jón Ásgeir fullyrti hins vegar fyrir dómi að hann hafi einungis átt örfá prósent í félaginu sem aðrir aðilar stofnuðu og stjórnuðu og hann hafi einungis komið að félaginu sem lítill hluthafi.

Hlutafé í eigu Ingibjargar Pálma

Helgi Jóhannesson lögmaður var stjórnarformaður Fjárfars frá árslokum 1999 til byrjunar árs 2002. Hann sagði fyrir dómi í Baugsmálinu að í ljós hefði komið að raunverulegur eigandi hluta þess hlutafjár sem Fjárfar var skráð fyrir hefði verið Ingibjörg Pálmadóttir, sambýliskona Jóns Ásgeirs.

Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Þá kom einnig fram í máli Helga að öll hans samskipti vegna Fjárfars hefðu verið við Kristínu Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Fjárfestingafélagsins Gaums, fjölskyldufyrirtækis Jóns Ásgeirs. Hún hefði sagt sér að upplýsingar hennar væru komnar frá Jóni Ásgeiri, sem hefði einnig tekið ákvarðanir fyrir félagið.

Sagði nafn sitt hafa verið misnotað

Sævar Jónsson, kaupmaður í Leonard, sagði í samtali vð Morgunblaðið árið 2004 að nafn sitt hefði ítrekað verið misnotað af hálfu Baugsmanna. Nafn hans hafi komið nálægt viðskiptum innan Baugs árum saman án hans vitundar, en hann taldi sig hafa gengið úr stjórn Fjárfars strax á stofnunarári þessi, árið 1998.

Hreinn Loftsson, sem var stjórnarformaður Baugs Group árið 2004, sagði Fjárfar ehf. alls óviðkomandi Baugi og hvorugt félagið væri hluthafi í hinu. Hreinn sagði jafnframt fráleitt að halda því fram að Baugur hafi misnotað nafn Sævars Jónssonar. Baugur hefði enga þörf haft fyrir það. Á svipuðum tíma sagði Jón Ásgeir, þáverandi forstjóri Baugs Group, í samtali við Rúv, að því færi fjarri að fjárfestingarfélagið Fjárfar hefði gegnt lykilhlutverki í fjárfestingum á hans vegum. Félagið væri í umsjón Gaums vegna skulda við Gaum, en Gaumur var stór hluthafi í Baugi.

Nú er í Lögbirtingarblaðinu auglýst eftir hverjum þeim sem telur sig vera forsvarsmann félagsins og lagt fyrir þann aðila að mæta fyrir dóm og halda uppi vörnum, ef einhverjar eru,  þegar áðurnefnd krafa um gjaldþrotaskipti verður tekin fyrir. Hvort einhver mætir kemur í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert