Hélt að það væri farið að gjósa

Bátasmiðjan brann til kaldra kola í nótt.
Bátasmiðjan brann til kaldra kola í nótt. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Slökkvistarfi er að ljúka á Akureyri en eldur hefur logað í bátasmiðjunni Seigum við Goðanes í alla nótt. Mikinn svartan og eitraðan reyk lagði yfir bæinn og taldi einn slökkviliðsmaður sem býr þar skammt frá að farið væri að gjósa í miðjum bænum.

Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, hefur verið að störfum allt frá því að tilkynnt var um eldsvoðann klukkan 00:42 í nótt. Allt tiltækt slökkvilið og lögregla var kallað út og um tíma var talið að rýma þyrfti byggð í nágrenni Goðaness. 

Bátasmiðjan á Akureyri brann til kaldra kola í nótt.
Bátasmiðjan á Akureyri brann til kaldra kola í nótt. Af Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Slökkvistarfi er lokið að mestu en það er enn brunavakt á staðnum, körfubíll með stút, til þess að fylgjast með því hvort einhver eldhreiður séu í veggjum hússins. En húsið er náttúrulega brunnið alveg niður og þakið horfið af því,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is. Krabbakló var notuð til þess að rífa þakið af húsinu undir morgun til þess að slökkva eldinn í síðustu herbergjum hússins. 

Húsið er tæpir tvö þúsund fermetrar að stærð og spurður um hvort nokkur hafi verið inni í húsinu þegar kviknaði í segist Ólafur ekki telja það en ekki hafi verið hægt að staðfesta það endanlega þar sem enginn hafi getað farið inn í eldhafið.

Eldur á Akureyri.
Eldur á Akureyri. Ljósmynd/Finnur Marinó

Ekki er vitað um eldsupptök en þegar kviknaði í húsinu í janúar var talið að eldsupptökin hafi verið sjálfsíkveikja í eldfimum vökvum í tuskum. Þá tókst að slökkva eldinn áður en húsið varð alelda en það munaði ekki miklu, segir Ólafur.

Hann segir að erfitt hafi verið að segja endanlega til um eldsupptök á þeim tíma en líklegast þyki að þá hafi kviknað í herði eða þynni í tuskum sem voru í ruslatunnu. Ekki er vitað hvort það hafi verið þannig nú en vitað sé að efni voru í húsinu sem geta valdið sjálfsíkveikju við réttar aðstæður.

Þarna er verið að blanda saman herði og plastefnum sem og þynni og trefjum við framleiðslu á plastbátum, segir Ólafur.

Húsið er gjörónýtt eftir eldsvoðann.
Húsið er gjörónýtt eftir eldsvoðann. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hann segir að reykurinn hafi verið gríðarlega eitraður, svartur og ljótur. Eða eins og einn slökkviliðsmaðurinn sagði þegar hann leit út um gluggann heima hjá sér þá hélt hann að það væri komið eldgos við hliðina á sér.

„Reykurinn blasti við alls staðar úr bænum. Svartur mökkur beint upp í loftið,“ segir Ólafur. 

„Á tímabili sló reyknum niður og lögreglan var byrjuð að undirbúa rýmingu á ákveðnu svæði. En það varð sem betur fer ekkert úr því þar sem aðstæður breyttust og reykurinn steig upp að nýju,“ segir Ólafur en reykinn lagði yfir Síðuhverfið. 

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Slökkvistarfi var að ljúka í húsnæði bátasmiðjunnar Seigs á Akureyri.
Slökkvistarfi var að ljúka í húsnæði bátasmiðjunnar Seigs á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert