Fjármálaáætlun samþykkt með ágreiningi

Fjármálaáætlun fjármálaráðherra fékk meiri umræðu en flest önnur mál sem …
Fjármálaáætlun fjármálaráðherra fékk meiri umræðu en flest önnur mál sem voru keyrð í gegnum þriðju umræðu. mbl.is/Golli

Alþingi samþykkti um klukkan tvö í nótt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Tillaga dómsmálaráðherra um skipan dómara í Landsrétt var ekki tekin til umræðu, en umræðu um hana var frestað til klukkan 11 í fyrramálið.

Þriðja umræða um fjölda frumvarpa var keyrð í gegn á Alþingi í nótt. Voru 25 frumvörp samþykkt í flestum tilfellum með miklum meirihluta atkvæða. Meðal þeirra frumvarpa sem voru samþykkt voru frumvörp um lög um stjórnun fiskveiða, framleiðslu vegabréfa, meðhöndlun úrgangs og ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð og umgengni um nytjastofna sjávar svo dæmi séu tekin.

Jafnlaunafrumvarpið var einnig samþykkt og sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, að hann „kyngdi ælunni” er hann greiddi atkvæði með frumvarpinu.

Síðasta mál á dagskrá var fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022. Hlé hafði verið gert á þingfundi áður en kom að þessum dagskrárlið um tíuleytið um kvöldið og var það hlé ítrekað framlengt. Mbl.is hafði eftir Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, í þinghléinu að búið væri að samþykkja áætlunina með ágreiningi ef ekki hefði komið til tillaga Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipan dómara í Landsrétt.

Tímamótaplagg sem stenst engar væntingar

Nokkrir þingmenn kváðu sér hljóðs áður en fjármálaáætlunin var samþykkt og sagði Katrín m.a. að áætlunin væri óljós og efnahagsforsendur byggðu á einsleitum spálíkönum.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði unnið væri að útgjaldaaukningu til mikilvægra málaflokka um leið og unnið væri gegn þenslu.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði áætlunina vera tímamótaplagg að því leyti að áætlunin stæðist engar væntingar. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði áætlunina vera svik og enginn sómi væri að því að samþykkja hana.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði þó vera ljóst að verið væri að fara út að ystu brún með áætluninni. „Svo tala hér menn eins og verið sé að boða einhvern blóðugan niðurskurð, en það er sko þvert á móti,“ sagði hann.

Lilja Alfreðsdóttir sagði áætlunina vera vanreifaða og vakti athygli á því hversu illa háskólastigið væri fjármagnað. Mér finnst mjög merkilegt að við sjáum ekkert af þessu fólki koma hér í pontu að fara yfir stöðuna,“ sagði Lilja.

Fjármálaáætlunin var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 31.

Áður hafði tillaga Pírata um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar verið felld með 32 atkvæðum gegn 31. Breytingartillögur Samfylkingar og Vinstri grænna voru sömuleiðis felldar.

Tillaga Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skip­an dóm­ara í Lands­rétt var ekki tekin til umræðu að atkvæðagreiðslu lokinni, en umræða um hana mun hefjast klukkan 11 í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert