Hvaða lög samþykkti þingið í gær?

mbl.is/Ómar

Fjöldi lagafrumvarpa var afgreiddur á fundum Alþingis í gær og í nótt en upphaflega stóð til að ljúka þingstörfum í gær. Það tókst hins vegar ekki að öllu leyti þar sem ákveðið var að þingfundur færi fram í dag sem stendur yfir til þess að ljúka umræðu um tillögu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um það hverjir verði skipaðir dómarar í Landsrétt.

Samtals voru 34 lagafrumvörp afgreidd og fer hér á eftir listi yfir þau öll, hvernig atkvæði féllu um þau og um hvað þau snerust hvert og eitt í mjög stuttu máli. Helstu málin sneru að jafnlaunavottun og viðbótarfjármögnun úr ríkissjóði vegna Vaðlaheiðarganga.

Lagafrumvörp sem afgreidd voru:

Jafnlaunavottun og opnun fyrirtækjaskráar

Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla (jafnlaunavottun). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 49 atkvæðum gegn átta. Sex sátu hjá í atkvæðagreiðslunni. Þar á meðal stjórnarþingmaðurinn Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Málið snýst um að skylda fyrirtæki til að verða sér úti um sérstaka vottun um að þau séu að greiða einstaklingum sömu laun óháð kyni.

Jarðgöng undir Vaðlaheiði (viðbótarfjármögnun). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 49 atkvæðum gegn níu. Fimm greiddu ekki atkvæði. Málið snýst um viðbótarfjármögnun úr ríkissjóði upp á 4,7 milljarða króna til viðbótar við fyrri fyrirgreiðslur til þess að ljúka við Vaðlaheiðargöng.

Fyrirtækjaskrá (aukinn aðgangur að fyrirtækjaskrá). Þingmannafrumvarp. Samþykkt með 62 atkvæðum. Málið snýst um að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í fyrirtækjaskrá.

Áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa (kröfur til mönnunar o.fl.). Nefndarfrumvarp. Samþykkt með 60 atkvæðum gegn tveimur. Málið snýst m.a. um breytingu á kröfum sem gerðar eru til mönnunar lóðs- og dráttarskipa og vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva.

Breytt útlendingalög og kaup á fyrstu íbúð

Útlendingar (skiptinemar í framhaldsskólum). Nefndarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um heimild til að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi ef þeir koma til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka.

Stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl. (framkvæmd og dagsetningar). Þingmannafrumvarp. Samþykkt með 42 atkvæðum en 21 greiddi ekki atkvæði. Málið snýst um að auka svigrúm fólks til þess að nýta séreignalífeyrissparnað til þess að kaupa sína fyrstu íbúð.

Dómstólar og breytingalög nr. 49/2016 (fjöldi hæstaréttardómara, meðferð ólokinna sakamála). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 62 atkvæðum. Málið snýst um að „ekki verði skipað í embætti hæstaréttardómara sem losna fyrr en þess gerist þörf til að fjöldi hæstaréttardómara verði sjö.“

Tekjustofnar sveitarfélaga (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 50 atkvæðum. Tólf greiddu ekki atkvæði. Þar á meðal Karen Elísabet Halldórsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Málið snýst um aðgerðir til þess að „vega á móti áhrifum ráðstöfunar séreignarsparnaðs til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar á útsvarstekjur sveitarfélaganna.“

Heildarendurskoðun á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

Hollustuhættir og mengunarvarnir (EES-reglur, losun frá iðnaði og skráningarskylda). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst aðallega um innleiðingu á EES-tilskipun um losun í iðnaði.

Meðhöndlun úrgangs og ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur (EES-reglur o.fl.). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um að tryggja að lög um meðhöndlun úrgangs samrýmist þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum.

Fjármálakerfið og skattar

Viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 49 atkvæðum en 14 greiddu ekki atkvæði. Málið snýst um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum í ljósi EES-tilskipunar.

Vátryggingasamstæður. Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 52 atkvæðum gegn ellefu. Málið snýst um að sett verði lög um vátryggingasamstæður í ljósi EES-tilskipunar.

Skattar, tollar og gjöld (samsköttun félaga, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda, leigutekjur o.fl.). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 35 atkvæðum gegn tíu. 18 greiddu ekki atkvæði. Málið snýst um ýmsar breytingar á lögum um skatta, tolla og gjöld.

Skortsala og skuldatryggingar (EES-reglur). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um „að auka gagnsæi í skortstöðum vissra fjármálagerninga og draga úr uppgjörsáhættu vegna óvarinnar skortsölu og líkum á óstöðugleika á markaði með ríkisskuldir vegna óvarinna skuldatrygginga.“

Sjávargróður í atvinnuskyni

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl. (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 53 atkvæðum gegn níu. Málið snýst um að „rannsóknir á sjávargróðri verði efldar samtímis því að öflun á þangi og þara verði felld undir ákvæði laga á sviði fiskveiðistjórnar.“

Umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa (eftirlit með vigtunarleyfishöfum). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 62 atkvæðum. Málið snýst um að auka við eftirlitsheimildir Fiskistofu hjá vigtunarleyfishöfum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða (hlutverk, framlag ríkissjóðs o.fl.). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um að framkvæmdir ríkisaðila á ferðamannastöðum í eigu ríkisins falli almennt utan gildissviðs laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastað.

Framleiðsla á vegabréfum

Lánshæfismatsfyrirtæki (EES-reglur). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 47 atkvæðum en 16 greiddu ekki atkvæði. Málið snýst um að „bæta gæði lánshæfismats og draga þannig úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika.“

Landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn (grunnlínupunktar og aðlægt belti). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um að Ísland taki sér svokallað aðlægt belti sem nemur 12 sjómílum fyrir utan landhelgina sem þýðir að íslenska ríkið getur sinnt ríkara eftirliti þar en ella.

Vegabréf (samningar um framleiðslu vegabréfa). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 54 atkvæðum en átta greiddu ekki atkvæði. Málið snýst um að heimila Þjóðskrá Íslands að semja um vegabréf og framleiðslukerfi til allt að tíu ára.

Stjórn fiskveiða (brottfall og framlenging bráðabirgðaákvæða). Nefndarfrumvarp. Samþykkt með 61 atkvæði en tveir greiddu ekki atkvæði. Málið snýst um að heimild ráðherra til að ráðstafa ákveðnu aflamagni til áframeldis í þorski verði fellt úr gildi.

Veiting ríkisborgararéttar

Veiting ríkisborgararéttar. Nefndarfrumvarp. Samþykkt með 62 atkvæðum en einn þingmaður sat hjá, Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Málið snýst um að veita tilteknum fjölda umsækjenda íslenskan ríkisborgararétt.

Kjararáð (frestun á framkvæmd lagaákvæða). Nefndarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um breytingar á lögum um kjararáð í kjölfar álitamála sem upp komu vegna laganna.

Vextir og verðtrygging o.fl. (lán tengd erlendum gjaldmiðlum, EES-reglur). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 32 atkvæðum gegn 31. Málið snýst um „innleiðingu varúðarreglna vegna hættu sem fjármálakerfinu stafar af lánum sem tengjast erlendum gjaldmiðlum.“

Landmælingar og grunnkortagerð (landupplýsingagrunnur og gjaldfrelsi landupplýsinga). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um breytingar á lögum um landmælingar og grunnkortagerð varðandi hlutverk Landmælinga Íslands við gerð, viðhald og miðlun stafrænna þekja og landupplýsingagrunna.

Loftlagsmál og mengunarvarnir

Loftslagsmál (losun lofttegunda, EES-reglur). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun koltvísýrings frá sjóflutningum í samræmi við EES-tilskipun.

Varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir (EES-reglur, refsiákvæði). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum í samræmi við EES-tilskipun.

Stöðugjöld á ferðamannastöðum

Umferðarlög (bílastæðagjöld). Stjórnarfrumvarp. Samþyktk með 53 atkvæðum en tíu greiddu ekki atkvæði. Málið snýst um heimild til „ráðherra og sveitarstjórnir að setja reglur um og innheimta gjald fyrir notkun stöðureita (bílastæða) og þjónustu sem henni tengist, svo sem viðveru bílastæðavarða og salernisaðstöðu.“

Breyting á ýmsum lögum á sviði samgangna (innleiðing alþjóðlegra skuldbindinga, EES-reglur). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um innleiðingar reglna sem stafa af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði samgangna.

Brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 62 atkvæðum. Málið er liður í því að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum.

Lánasjóður íslenskra námsmanna (lánshæfi aðfaranáms). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um að bregðast við ábendingu frá Ríkisendurskoðun um að lánveitingar vegna aðfaranáms fari ekki aðeins í bága við lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna heldur sé brotin jafnræðisregla gagnvart þeim sem leggi stund á framhaldsskólanám til stúdentsprófs.

Breyting á vopnalögum

Meðferð sakamála (rafræn undirritun sakbornings). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um að „auka skilvirkni við afgreiðslu smærri mála hjá lögreglu með því að einfalda framkvæmd og auka þannig afköst og hraða við meðferð mála.“

Vopnalög (forefni til sprengiefnagerðar, EES-reglur). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 62 atkvæðum. Málið snýst um innleiðingu EES-reglugerð „um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“

Endurskoðendur (eftirlitsgjald). Stjórnarfrumvarp. Samþykkt með 63 atkvæðum. Málið snýst um að tryggja að endurskoðendaráð „geti sinnt því eftirlitshlutverki sem það hefur samkvæmt lögunum og með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að tryggja að svo sé.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert