Fékk ekki að kveðja börnin sín

Regina, barnsmóðir Eugene, ásamt tveimur sonum þeirra.
Regina, barnsmóðir Eugene, ásamt tveimur sonum þeirra. ljósmynd/No borders Iceland

Hinum nígeríska Eugene Osaramaese hefur verið vísað úr landi, án þess að hafa fengið að kveðja fjölskyldu sína. Mbl.is fjallaði um mál hans fyrr í dag, en mótmælt var fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu klukkan 11 í morgun.

Eugene er þriggja barna faðir, en barnsmóðir hans Regina er niðurbrotin að sögn Hjalta Hrafns Hafþórssonar, meðlims í No Borders Iceland.

„Við heyrðum það frá lögfræðingnum hans þegar Regina bað um að fá að hitta hann að það væri búið að flytja hann til Keflavíkur. Hann fékk hvorki að kveðja konuna sína né börnin sín,“ segir Hjalti. „Það kom mér mjög á óvart að þeir skyldu ganga það langt.“

Óskuðu eftir frestun hjá dómsmálaráðuneytinu

Fulltrúar frá No Borders Iceland fóru eftir mótmælin í dómsmálaráðuneytið og óskuðu eftir frestun á brottflutningi í tvo daga, sem er úrræði sem hægt er að nýta ef ný gögn berast. „Þar voru þau tilbúin til að gera það og stimpluðu gögn þess efnis,“ segir Hjalti en bætir við að gögnin hafi þurft að berast til Útlendingastofnunar til að lögreglan myndi aðhafast.

„Þeir fóru yfir málið en hafa sagst bara svara tölvupóstum sem er svo gott sem nei,“ segir Hjalti. „Þetta er bara ótrúlega vont dæmi um það að ein stofnun í kerfinu bendir á þá næstu sem bendir á þá næstu og svo framvegis í stað þess að taka ákvörðun.“

Fjölskyldan í sárum

Eftir því sem Hjalti best veit er Eugene nú um borð í flugvél á leið til Stuttgard, þaðan sem honum verður flogið til Nígeríu. Segir hann fjölskylduna vera í sárum eftir atvikið. „Regina er niðurbrotin og eldri strákarnir þeirra tveir eru búnir að vera í rusli,“ segir hann. „Það var ekkert tillit tekið til þess að hann á þrjú börn.“

Þá er Regina í miklu upp­námi og ótt­ast eig­in ör­lög og barna sinna. Hjalti bend­ir hins vegar á að á dög­un­um hafi nýj­ar for­send­ur skap­ast til að leyfa þeim að dvelja áfram hér á landi, en það hafi verið mál hjón­anna Abdelwahab Saad og Fadilu. Hjón­in fengu að vita það fyrr í vik­unni að þau fá að dvelja áfram á Íslandi eft­ir að kær­u­nefnd Útlend­inga­mála lagði það fyr­ir Útlend­inga­stofn­un að veita fjöl­skyld­unni dval­ar­leyfi í ljósi aðstæðna. Segist Hjalti vona að litið verði til þess þegar ákvörðun verði tekin um framtíð þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert