Háafell hyggst halda sínu striki

Laxeldi í sjókvíum.
Laxeldi í sjókvíum. mbl.is/RAX

Fiskeldisfyrirtækið Háafell hyggst halda sínu striki þrátt fyrir ógildingu starfsleyfis fyrir fiskeldi í Ísafjarðardjúpi sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti í gær. Býst verkefnastjóri Háafells við því að fá nýtt leyfi á næstunni. Frá þessu var greint í fréttum Rúv í kvöld.

Úrsk­urðar­nefndin ógilti í gær starfs­leyfi Um­hverf­is­stofn­un­ar varðandi 6.800 tonna sjókvía­eldi regn­bogasil­ungs í Ísa­fjarðar­djúpi sem gefið var út 25. októ­ber á síðasta ári en það er fyr­ir­tækið Háa­fell sem á og rek­ur sjókvía­eldið.

„Ég get ekki séð annað en að þetta sé tímamótaúrskurður sem þýðir það að þetta eldisæði sem hefur dunið yfir landinu og færibandaafgreiðsla umsókna sé hér með stopp,“ sagði Óttar Yngvason, lögmaður kærenda leyfisins, í samtali við Rúv. Önnur leyfi fyrir sjókvíaeldi eru nú einnig fyrir dómstólum og í kæruferli.

Úrskurðarnefndin gerir athugasemd við það að skort hafi gagnsæi í rökstuðningi ákvörðunar Umhverfisstofnunar fyrir því að veita starfsleyfið í ljósi álits Skipulagsstofnunar á umhverfismati.

Í samtali við Rúv segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, að verklag hafi breyst frá því að starfsleyfið var gefið út. Þá segir hún helstu neikvæðu þætti umhverfismatsins vera þá sem snúi að Matvælastofnun, sem gefur út rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í sjó, en hefur ekki gefið út rekstrarleyfi fyrir þessu eldi. Þá hafi verið formgallar á starfsleyfinu sem að sögn Sigrúnar hefur verið bætt úr.

Ekki liggur ljóst fyrir hver næstu skref verða fyrir leyfið sem um ræðir en Háafell hyggst engu að síður halda sínu striki, þrátt fyrir úrskurðinn sem var fyrirtækinu mikil vonbrigði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert