10 milljóna þakið rofið

WOW hjólreiðakeppnin - WOW Cyclothon - hjólað í Eyjafirði - …
WOW hjólreiðakeppnin - WOW Cyclothon - hjólað í Eyjafirði - Hjólað í Vaðlaheiði gegnt Akureyri Þorgeir Baldursson

Fjáröflun WOW Cyclothon er í fullum gangi en nú þegar hafa safnast yfir tíu milljónir króna til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Fjáröflunin er í formi áheitakeppni þar sem mörg liðanna hafa sett sér markmið sem hægt er að heita á. 

Klukkan þrjú í dag var lið CCP enn á toppi áheitakeppninnar og hafði safnað yfir milljón. Næst á eftir var lið Cartrawler með tæpar 400.000 krónur safnaðar, en liðið er eingöngu skipað erlendum keppendum og málefnið þeim því framandi. Þá hefur Team Pósturinn safnað 320.000 krónum. Að auki hafa alls sjö lið safnað yfir 200.000 krónum, 28 lið yfir 100.000 krónum og 61 lið sem safnað hafa 50 þúsund krónum eða meira.

Til mikils er um að keppa enda málefnið gott auk þess sem sigurlið áheitakeppninnar fær í verðlaun flug með WOW air fyrir alla liðsfélaga.

Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í tilkynningu að félagsmenn séu gríðarlega þakklátir og auðmjúkir þegar þeir sjá þennan mikla stuðning. „Við dáumst að þessu fólki, ég fæ hreinlega strengi við að horfa á þau, hvað þá meira.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert