Stormviðvörun og ausandi rigning

Rok og rigning - Ísland í dag.
Rok og rigning - Ísland í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búast má við stormi austan Öræfa og sunnan til á Austfjörðum með vindhviðum allt að 35 m/s. Því er ekki ráðlegt fyrir farartæki sem taka á sig vind að aka á þessum slóðum. Talsverð eða mikilli rigningu er spáð austantil á landinu, og síðan einnig á Ströndum í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

„Sunnan undir Vatnajökli frá Kvískerjum og austur fyrir Lón má reikna með hvössum vindi og hviðum staðbundið allt að 30-35 m/s alveg þar til seint í kvöld eða nótt. Einnig er hvasst við Lómagnúp og um miðjan dag kemur vindur líka til með að rjúka upp á Mýrdalssandi. Þá er vakin athygli á því að sérlega mikið kemur til með að rigna austanlands, einkum á Austfjörðum og ekki hægt að útiloka grjóthrun á vegi við þær aðstæður síðar í dag og í nótt,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

„Norðaustan hvassviðri eða stormur austan Öræfa og á sunnanverðum Austfjörðum í dag en norðanstæðari í kvöld og ekki ferðaveður fyrir farartæki sem taka á sig vind. Lægir smám saman á morgun. Í öðrum landshlutum má búast við norðaustan 8-15 m/s.

Ausandi hellirigning verður á austanverðu landinu, þó einna mest á norðanverðum Austfjörðum. Einnig bleytir vel í á Ströndum. Rigning með köflum suðvestanlands fram eftir degi. Áfram vætusamt á norðanverðu landinu á morgun en skýjað með köflum sunnan til. Heldur svalt í veðri, 7 til 14 stig, hlýjast suðvestanlands.

Síðan er nú útlit fyrir öllu rólegra veður fram á fimmtudag, breytilega átt, 3-8 m/s, skýjað með köflum en víða síðdegisskúrir. Hiti 8 til 16 stig að deginum.

Sannarlega ekki kræsilegt veður nú í vorvertíðarlok og ekki gott að stripplast á Jónsmessunótt. En kaldara hefur verið að velta sér í snjónum 1992 en þá gerði hret með snjókomu um allt norðanvert landið og jafnvel í uppsveitum suðvestanlands. Mest mældist snjódýptin 7 cm í Dalsmynni í Hjaltadal og 4 cm á Nautabúi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Norðaustanátt, 8-15, en 15-23 suðaustantil. Talsverð eða mikil rigning suðaustan- og austanlands, rigning með köflum norðanlands en skúrir um landið suðvestanvert. Heldur hægari seint í kvöld. Úrkomuminna sunnantil á Austfjörðum en mikil rigning á Ströndum.
Norðan 15-23 í fyrramálið sunnan Vatnajökuls og á Austfjörðum en annars 8-15. Talsverð rigning á NA- og A-landi og einnig á Ströndum en annars úrkomulítið. Hægari vindur og úrkomuminna annað kvöld.
Hiti 7 til 14 stig að deginum, hlýjast suðvestanlands.

Á laugardag:

Norðaustan 8-15 m/s, hvassast austast. Rigning og svalt í veðri norðan- og austanlands, en léttir til sunnan- og vestanlands. Dregur úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.

Á sunnudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað með köflum og stöku síðdegisskúrir sunnan- og vestanlands og hiti 8 til 12 stig. Skýjað og þurrt að mestu um landið norðaustanvert og hiti 4 til 8 stig.

Á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og víða síðdegisskúrir, einkum inn til landsins. Hiti 8 til 16 stig að deginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert