Allt of margir í símanum við akstur

Sektargreiðslur vegna símanotkunar undir stýri hafa ekki hækkað í ellefu …
Sektargreiðslur vegna símanotkunar undir stýri hafa ekki hækkað í ellefu ár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ökumenn sem nota farsíma undir stýri fá jafnháa sekt og fyrir rúmlega áratug síðan; 5000 krónur. Aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir ekkert hafa breyst varðandi eftirlit og sektargerðir; lögregla sekti ef hún verður vitni að broti.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá um­ferðardeild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu segir að reynt sé að sekta fyrir þessi brot eins og mannskapur leyfi en telur að fólk leyfi sér þetta í allt of miklum mæli. „Erlendar rannsóknir og vísbendingar hjá okkur benda til þess að menn séu annars hugar í símanum og hafi verið að lenda í alvarlegum slysum,“ segir Guðbrandur í samtali við mbl.is og bætir við að það sé ekki eingöngu bannað að tala í símann við akstur:

„Samkvæmt ákvæðinu er öll notkun farsíma bönnuð, það er ekki bara bannað að tala í hann.

Símarnir eiga heima í vasanum við akstur.
Símarnir eiga heima í vasanum við akstur. mbl.is/Golli

Vilja hækka lágmarkssektir

Guðbrandur bendir á að árlega séu um það bil 500 ökumenn kærðir fyrir notkun farsíma án þess að þeir séu með handfrjálsan búnað. Mest hafa rúmlega 900 ökumenn verið kærðir fyrir þetta brot á einu ári.

„Sektarupphæðin hefur verið sú sama síðan 2006 þannig að forvarnargildið er lítið sem ekkert,“ segir Guðbrandur. „Sektin er 5000 krónur en 3750 krónur ef greitt er innan mánaðar.

Guðbrandur segir að lögreglan hafi lagt það til í mörg ár að hækka lágmarkssektir til að ná fram forvarnargildi. „Þá erum við að tala um sektir sem eru 5000 krónur. Við viljum hækka þær til að ná fram forvarnargildinu en þetta hefur verið til skoðunar í tvö til þrjú ár hjá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti.“

Hann telur að fólk myndi frekar kaupa sér handfrjálsan búnað ef það þyrfti að velja á milli þess að að borga tugi þúsunda í sekt. „Núna er sektin það lág að það skiptir ekki máli þó þú sért tekin einu sinni til tvisvar á ári; sektargreiðsla nær varla upp í kostnað fyrir búnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert