Aðalmeðferð í Landsréttarmálum í ágúst

Fyrirtökur í málunum fóru fram í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Fyrirtökur í málunum fóru fram í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is

Aðalmeðferð í málum Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhanssonar hæstaréttarlögmanna gegn íslenska ríkinu vegna skipunar í embætti dómara við Landsrétt mun fara fram þann 11. ágúst næstkomandi.

Fyrirtökur í málunum fóru fram í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, en þar voru lagðar fram greinargerðir af hálfu ríkisins.

Málin eru þrískipt, en í fyrsta lagi snúast þau um ógildingarkröfur, í öðru lagi um viðurkenningu á bótaskyldu vegna mögulegs fjártjóns og í þriðja lagi eru þar kröfur um miskabætur, auk málskostnaðar. Upphæð miskabótanna sem farið er fram á er ein milljón króna í hvoru málinu. Af hálfu ríkisins er farið fram á frávísun og öllum kröfum hafnað.

Eins og fjallað hefur verið um höfðuðu Ástráður og Jóhannes mál gegn ríkinu eftir að dómsmálaráðherra skipti út fjórum umsækjendum sem dómnefnd hafði áður lagt til að yrðu dóm­ar­ar við Lands­rétt.

Í tilkynningu sem Jóhannes sendi frá sér vegna málshöfðunarinnar í síðasta mánuði sagði hann það vera sannfæringu sína að málsmeðferð dóms­málaráðherra og Alþing­is við val á um­sækj­end­um til skip­un­ar í embætti dóm­ara við Landrétt hafi brotið í bága við lög. „Ég trúi því ekki að þriðja grein rík­is­valdss­ins, dómsvaldið, muni láta það viðgang­ast átölu­laust," sagði í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert