Fyrstu íbúðirnar í meira en áratug

Um 900 manns búa á Grundarfirði, en Þorsteinn bæjarstjóri segir …
Um 900 manns búa á Grundarfirði, en Þorsteinn bæjarstjóri segir bæði sjávarútveg og ferðaþjónustu í blóma og valdi því að skortur hafi verið á íbúðarhúsnæði. Í baksýn má sjá Kirkjufell, en fjallið er meðal vinsælli myndefna ferðamanna hér á landi. Mynd/Þorkell Þorkelsson

Eftir um 10 ára stopp í uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Grundarfirði eru nú hafnar framkvæmdir á nokkrum lóðum og fleiri lóðum verið úthlutað til uppbyggingar. Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri segir að í nokkurn tíma hafi verið skortur á húsnæði, en það helgast meðal annars af góðu atvinnuástandi og vaxandi ferðaþjónustu. Hafi nokkur íbúðahús þannig farið í útleigu til ferðamanna. Því til viðbótar er verið að ráðast í uppbyggingu dvalarheimilis fyrir aldraða í bæjarfélaginu.

Afslátturinn örvaði markaðinn strax

Þorsteinn segir að hingað til hafi verið nokkuð erfitt að fá fólk af stað til að byggja, en að Grundarfjörður hafi tekið þá ákvörðun um áramótin að gefa eftir gatnagerðargjöld fyrir lóðir sem flokkist sem þéttingalóðir í götum sem þegar eru tilbúnar. Segir hann þetta hafa verið gert til að örva markaðinn og það hafi strax skilað sér.

„Við höfum úthlutað nokkrum lóðum og menn eru að fara af stað þar,“ segir Þorsteinn, en í einu tilfelli er búið að gera grunn og byrjað að reisa húsið. Segir hann að á öðrum stað sé byrja að grafa grunn fyrir nýtt hús. Í heildina er búið að úthluta fimm eða sex lóðum og segir Þorsteinn að það muni strax um slíkar framkvæmdir í bæjarfélagi eins og Grundarfirði þar sem rétt tæplega 900 manns búi.

Talsvert af íbúðum leigðar ferðamönnum

„Þó það hafi ekki fjölgað mikið í bænum þá hefur verið töluvert magn íbúða í leigu fyrir ferðamenn og hér eins og annars staðar er fermetrafjöldi á hvern íbúa að verða meiri,“ segir Þorsteinn. Segir hann skort á íbúðarhúsnæði vera þröskuld fyrir þá sem vilji flytja til bæjarins enda geti markaðsverð á landsbyggðinni hrætt fólk frá því að fara í íbúðafjárfestingu þar. Með því að gefa afslátt af gatnagerðargjöldunum segir Þorsteinn hins vegar að það sé vel hægt að byggja hús á staðnum sem standi undir sér. Síðast var íbúðarhús byggt í Grundarfirði á árunum fyrir hrun.

Búið er að steypa grunn og slá upp bílskúr á …
Búið er að steypa grunn og slá upp bílskúr á einni lóðinni. Byrjað er að grafa grunn á annarri lóð og fleiri lóðum hefur verið úthlutað á Grundarfirði. mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Það er þó ekki bara ferðaþjónustuna sem ýtir undir eftirspurn eftir húsnæði í Grundarfirði því Þorsteinn bendir á að útgerðin Guðmundur Runólfsson (G. RUN) hafi nýlega farið í uppbyggingu á fiskiðjuveri. „Það er mikið öryggi í því þegar slík fyrirtæki ákveða að byggja upp nýtt fiskiðjuver. Fólk fyllist öryggi um að þetta sé komið til að vera,“ segir hann.

Fljótlega hafist handa við stækkun dvalarheimilis

Þorsteinn nefnir einnig að í síðasta mánuði hafi verið tekin fyrsta skóflustungan að nýrri stækkun á dvalarheimili fyrir aldraða í bænum, en framkvæmdir munu hefjast á næstu dögum. Verður þar dvalarrými fyrir sex einstaklinga.

Um þrátíu sinnum á ári margfaldast fjöldi þeirra sem eru í Grundarfirði en skemmtiferðaskip hafa mörg hver vanið komu sína til bæjarins. Segir Þorsteinn að stærstu skiptin séu með allt að 2.800 farþega og til viðbótar sé áhöfn upp á um 1.500 manns. „Þá fjölgar töluvert í bænum,“ segir hann. Það sem skipti bæinn þó hvað mestu varðandi ferðaþjónustuna sé að hún sé orðin heilsárs atvinnugrein en ekki bara aukavinna yfir sumartímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert