Ræða sjúkraþyrlu á breiðari grunni

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur einboðið að skoða frekar kosti þess að taka í notkun sjúkraþyrlu hér á landi. Fagráð um sjúkraflutninga kynnti í síðustu viku skýrslu þar sem lagt er til að fengin verði til reynslu sjúkraþyrla sem þjónusti Suðurland og Vesturland. Landhelgisgæslan hefur gagnrýnt að ekki hafi verið haft samráð við stofnunina við gerð skýrslunnar.

„Það fyrsta sem blasir við í úttektinni, sem er ágæt út af fyrir sig, er að það hefði farið betur á því að ræða við Gæsluna líka,“ segir Sigríður. Sjúkraflutningar heyra undir heilbrigðisráðherra en Landhelgisgæslan, sem nú annast allt sjúkraþyrluflug, undir dómsmálaráðuneytið.

Hyggst Sigríður því ræða framhaldið á breiðari grunni, bæði við Óttar Proppé heilbrigðisráðherra og fjárveitingavaldið. Eins er hún jákvæð fyrir því að setja af stað vinnu á vegum Landhelgisgæslunnar þar sem áhrifin af komu sjúkraþyrlu á þyrluflug Landhelgisgæslunnar eru athuguð.

Björgunarþyrlur eins og Landhelgisgæslan á eru stærri en sjúkraþyrlur sem …
Björgunarþyrlur eins og Landhelgisgæslan á eru stærri en sjúkraþyrlur sem lagt er til að verði teknar í notkun hér á landi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það þarf bara að skoða það hvort það sé hagkvæmt og samræmist störfum gæslunnar almennt,“ segir hún um aðkomu Gæslunnar að rekstri sjúkraþyrlu. Þá vill hún einnig líta til samkeppnissjónarmiða og telur vænlegt að skoða aðkomu einkaaðila að rekstri sjúkraþyrlu í því sambandi.

Þó kveðst hún skilja sjónarmið stjórnenda Landhelgisgæslunnar þar sem áhafnir á þyrlum Gæslunnar þurfa að halda sér í æfingu. Hefur sjúkraþyrluflug Landhelgisgæslunnar m.a. verið hluti af þeim æfingum.

Sigríður segir að ræða þurfi sjúkraflutninga og sjúkraþyrluflug heildstætt. Einhver umræða hafi verið um sjúkraþyrluflugið í tengslum við endurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar en enn vanti stefnu stjórnvalda í þeim efnum.

Hún segir skýrslu fagráðsins ágæta, en kanna þurfi nánar kosti og galla þess að taka í notkun sjúkraþyrlur sem séu smærri og geta þar af leiðandi ekki flogið í sömu veðrum og björgunarþyrlur Gæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert