Ísland í brennidepli á Gimli

Íslendingadagurinn. Bílalestin liðast í gegnum Gimli og gestir raða sér …
Íslendingadagurinn. Bílalestin liðast í gegnum Gimli og gestir raða sér upp beggja vegna alla leiðina. Ljósmyndir/Jenna Boholij

Íslendingadagurinn á Gimli í Manitoba í Kanada er haldinn hátíðlegur fyrstu helgina í ágúst og er fjölmennasta hátíð fylkisins ár hvert. Kristine Sigurdson, nýr framkvæmdastjóri viðburðarins, segir að á döfinni sé að auka enn tengslin við Ísland og þá vonandi í samvinnu við íslensk ferðamálayfirvöld og ferðaskipuleggjendur á Íslandi.

Kristine er vel þekkt í „íslenska“ samfélaginu á Gimli. Hún rak lengi gjafavöruverslun í bænum, er fyrrverandi formaður Verslunarsambands Gimli og var framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðar Gimli fyrstu árin, 2003 til 2010. Til að byrja með var kvikmyndahátíðin samtímis Íslendingadagshátíðinni, en verður 26.-30. júlí í ár.

Víkingagarðurinn einstakur

Íslendingadagshátíðin fer nú fram í 128. sinn og í 65. skipti á Gimli en áður var hún í Winnipeg. Þetta er engin venjuleg bæjarhátíð heldur þverskurður af samfélaginu með íslensku og kanadísku ívafi, en Kanada hélt upp á 150 afmæli ríkisins sl. laugardag.

Uppruninn leynir sér ekki.
Uppruninn leynir sér ekki.


Dagskráin er í föstum skorðum, en ætla má að hápunkturinn í ár verði opnun á Víkingagarði með álfum og tröllum sunnan við Betel, dvalarheimili aldraðra. Hann verður samt ekki endanlega tilbúinn fyrr en næsta ár. „Þetta er viðamesta verkefni Íslendingadagsnefndar og stjórnin hefur unnið þrekvirki,“ segir Kristine, en verkefnið er unnið í samvinnu við bæjarstjórn Gimli. Kristine bætir við að garðurinn eigi eftir að vera helsta aðdráttarafl Gimli um ókomin ár og tengja fólk enn fastari böndum.

Íslendingadagurinn er einn af hornsteinum íslenska samfélagsins í Manitoba og Kristine segir að hátíðin sé hluti af lífi fólks. Hún sameini fjölskyldur og vini, sem komi víða að, ekki síst til þess að minnast íslenska upprunans, en svo eigi allir sín áhugamál. Sumir taki alltaf þátt í keppninni í að byggja sandkastala, aðrir hafi mestan áhuga á þjóðlegum gildum, íþróttum, menningu og listum, en allir njóti flugeldasýningarinnar. „Dagskráin er fjölbreytt og þar eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir hún. „Það má líkja hátíðinni við köku. Það eru ekki eggin, hveitið eða sykurinn sem gera hana gómsæta heldur hvernig öll efnin tengjast.“

Kristine Sigurdson.
Kristine Sigurdson.


Þar kemur til kasta Kristine, því sem framkvæmdastjóri heldur hún um alla þræðina og sér til þess að hlutirnir gangi upp. „Hátíðin hefur gengið eins vel og raun ber vitni um árabil vegna þrotlausrar vinnu stjórnarmanna og annarra sjálfboðaliða,“ áréttar hún, en ótrúlega margir leggja hönd á plóg.

Eitt af helstu markmiðum stjórnarinnar er að tengja hátíðina enn frekar við Ísland. Kristine segir að þá sé einkum verið að hugsa um að bjóða upp á auknar upplýsingar um land og þjóð. Í því sambandi nefnir hún almennar leiðbeiningar til ferðamanna og eins upplýsingar um hvernig fólk geti aflað sér nánari þekkingar um uppruna sinn, fjölskyldutengsl og fleira.

Sérstakir heiðursgestir í ár frá Íslandi verða Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem flytur minni Kanada, og Hjálmar W. Hannesson, formaður Þjóðræknisfélags Íslendinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert