Hvernig nýtist séreignarsparnaðurinn?

Fjölmennt var á fundi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn sem fram fór …
Fjölmennt var á fundi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismarkaðinn sem fram fór í gær. mbl.is/Golli

Hinn 1. júlí tóku í gildi lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Lögin eru hluti af húsnæðisstuðningi hins opinbera við fyrstu kaupendur og fela í sér heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði, skattfrjálst, til kaupa á fyrstu íbúð. Birta Austmann, lögfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, kynnti lögin á opnum fundi um húsnæðismál sem fram fór í húsakynnum Íbúðalánasjóðs í gær.

Með lögunum var eldri tímabundin heimild um skattfrjálsa nýtingu séreignasparnaðar framlengd samhliða því að stuðningnum var töluvert breytt. Boðið er upp á þrjár leiðir til að nýta séreignarsparnaðinn en meðal þess sem fram kom á fundinum er að úrræðið gagnast betur þeim sem hafa hærri tekjur en þeim sem hafa lægri tekjur. Þannig virðist sem úrræðið gagnist helst þeim sem þegar eru komnir inn á markað.

Þrjár leiðir í boði

Markmið laganna er að auðvelda fyrstu kaupendum að safna fyrir útborgun ásamt því að létta undir greiðslubyrði á fyrstu árum lánstímans með notkun skattfrjáls séreignarsparnaðar. Til að nýta úrræðið þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, þ.e. að um sé að ræða fyrstu íbúðakaup einstaklings, einstaklingur eignist að minnsta kosti 30% eignarhlut í íbúðinni og nær heimildin til 10 ára samfellds tímabils.

Þá takmarkast heimildin við 4% framlag og allt að 2% mótframlagi launagreiðenda af iðgjaldsstofni á mánuði. Hægt er að nýta séreignarsparnaðinn á þrjá vegu. Um er að ræða einstaklingsúrræði en tveir aðilar geta nýtt sín einstaklingsbundnu réttindi sameiginlega ef þeir uppfylla önnur skilyrði. Þá fer eftir lánastofnunum hvort séreignarsparnaður er tekinn með inn í greiðslumat.

1. Sparnaðarleiðin

Með sparnaðarleið er séreignarsparnaður nýttur til að safna fyrir útborgun í íbúð. Sé þessi leið valin er hægt að nýta uppsafnaðan séreignarsparnað sem eigið fé til kaupa á fyrstu íbúð. Á fundinum tók Birta stílfært dæmi um manninn Jón sem kaus nýta úrræðið með því að fara sparnaðarleiðina.

Mynd/Íbúðalánasjóður

2. Höfuðstólsleiðin

Með höfuðstólsleið er séreignin nýtt til að greiða reglulega inn á höfuðstól láns. Sparnaði er þannig ráðstafað mánaðarlega inn á höfuðstól verðtryggðs- eða óverðtryggðs láns sem tryggt er með veði í íbúðinni. Með þessari leið má flýta fyrir eignamyndun þar sem reglulega er greitt inn á höfuðstól og dregur þessi leið einnig úr uppsöfnunaráhrifum vaxtavaxta á höfuðstól og á afborganir út lánstíma. Kynnti Birta til sögunnar hana Bergdísi sem ákvað að fara höfuðstólsleiðina.

Mynd/Íbúðalánasjóður

3. Blandaða leiðin

Loks má með svokallaðri blandaðri leið greiða inn á höfuðstól og lækka greiðslubyrði.  Þessi leið gerir fólki með óverðtryggt lán kleift að lækka greiðslubyrði á fyrstu árum lánstímans en þannig getur mánaðarleg greiðslubyrði orðið líkari greiðslubyrði óverðtryggðs láns og verður eignamyndun þannig meiri. Hinrik nokkur ákvað að fara blönduðu leiðina.

Mynd/Íbúðalánasjóður

Aðeins 7% tekjulægstu nýta úrræðið

Á kynningarfundinum í gær var jafnframt fjallað um niðurstöður spurningakönnunar Íbúðalánasjóðs og Zenter um húsnæðismarkaðinn sem og svokölluð startlán sem nú eru til skoðunar hjá Íbúðalánasjóði.

„Það sem mér fannst áhugavert við niðurstöður þessarar spurningakönnunar var tekjuskiptingin. Séreignarsparnaður var minnst nýttur af tekjulægsta hópnum, hvort sem það væri til lífeyrissparnaðar eða til húsnæðis,“ sagði Birta Austmann.

Eftir því sem tekjur hækkuðu nýttu fleiri sér úrræðið. Aðeins 7% þeirra sem tilheyra tekjulægsta hópnum nýta sér séreignarsparnað til greiðslu inn á húsnæðislán eða til sparnaðar fyrir húsnæði, samanborið við 50% í tekjuhæsta hópnum.

Birta Austmann, lögfræðingur hjá Íbúðalánasjóð.
Birta Austmann, lögfræðingur hjá Íbúðalánasjóð. mbl.is/Golli

Birta stiklaði einnig á stóru um aðra þætti í húsnæðisstuðningi hins opinbera, til að mynda vaxtabætur, stofnframlög og húsnæðisbætur. „Það virðist þó vera að það séu ekki allir sem eiga rétt á húsnæðisbótum að nýta sér þær en það kom fram í nýlegri spurningakönnun á vegum íbúðalánasjóðs,“ sagði Birta.

Fréttin byggist á greiningu Hagdeildar Íbúðalánasjóðs og því er fram kom í máli sérfræðinga á kynningarfundinum í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert