Hjólreiðamaðurinn á batavegi

Frá hjólreiðakeppninni fyrir tveimur árum.
Frá hjólreiðakeppninni fyrir tveimur árum.

Hjólreiðamaðurinn, sem varð verst úti þegar fimm hjólreiðamenn skullu í jörðina í hjólreiðakeppninni KIA-Gullhringnum á laugardaginn, slasaðist minna en talið var í fyrstu og er hann nú á batavegi. Þetta segir Þorvaldur Daníelsson, vinur mannsins og stofnandi Hjólakrafts, í samtali við mbl.is.

„Þetta lítur allt betur út en það gerði á laugardaginn, sem er mjög jákvætt. Þetta eru einhver smá brot og skrámur. Stoðkerfið er lagi og höfuðið og heilinn virðist hafa sloppið við áverka. Það er ljóst að hann er ekki örkumlaður,“ segir Þorvaldur.

Slysið varð með þeim hætti að einn hjólreiðamannanna hjólaði, að því er virðist, beint ofan í rauf á svokölluðu kindahliði, þar sem annað dekk hjólsins festist. Við það féll maðurinn af hjólinu og fleiri hjólreiðamenn fipuðust.

Hjólreiðamaðurinn er enn á sjúkrahúsi en er vongóður um að sjúkrahúsvistin fari að styttast í annan endann, að sögn Þorvaldar.

Í fyrstu leit út fyrir að maðurinn hefði slasast alvarlega og Þorvaldur viðurkennir að þetta hafi litið illa út. „Ef það kemur einhver skurður þá blæðir mikið og „panic“-ástand getur myndast, en allar sögur af ótímabærum dauða þessara drengja eru stórlega ýktar,“ segir hann og vísar þar til hjólreiðamannanna sem lentu í slysinu.

„Menn töluðu um opin beinbrot og fleira í þeim dúr, en það var ekkert slíkt. Þetta eru meira tognanir og slit, en lítið brotið og bramlað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert